135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[16:42]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Spurningin snýst ekki um það að frysta það sem er. Við erum fyrir breytingar og við erum fyrir framfarir. Við höfum hins vegar efasemdir um að einkavæðing sjúkrahúsanna og heilbrigðisþjónustunnar og orkulindanna feli í sér nokkrar framfarir. Við höfum þá skoðun að það kunni að fela í sér mikla afturför. Við erum fylgjandi breytingum og tölum fyrir breytingum og framförum en vörum við kerfisbreytingum að þessu leyti.

Hvort það er auðveldara að ráða fólk til starfa hjá stofnunum sem hafa rýmri fjárráð en hjá hinum sem hafa þau rýrari þá held ég að það liggi í augum uppi að ríkari stofnunin á auðveldara með að bjóða betri kjör og af þeim sökum eigi hún auðveldara með að ráða fólk til starfa. Hér erum við að tala um útgjöld ríkisins. Við erum að tala um hagsmuni greiðandans og þá viljum við láta kanna.

Ég veit að sveitarfélögin hafa haft mismunandi skoðun á þessu. Sum sveitarfélög hafa ráðist í umfangsmikla einkaframkvæmd. Önnur hafa ekki gert það. Mér kemur eitt í hug sérstaklega. Það er Kópavogur. Þar er bæjarstjóri fyrrverandi hv. þm. Gunnar Birgisson, maður sem við þekkjum ágætlega. Hvernig skyldi standa á því að hann ræðst ekki í einkaframkvæmd? Gæti það verið vegna þess að hann er bisnessmaður og svolítið klókur sem slíkur?