135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[16:46]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það skyldi þó aldrei vera að við gætum náð saman í þessu máli um að fara í rannsóknina. Hv. þingmaður tekur undir með mér varðandi það sjónarmið að við eigum að skoða málið pragmatískt eins og hann segir, þ.e. með tilliti til reynslu, og út á það gengur þingmálið okkar.

Hann bendir á að útgjöld til heilbrigðismála og útgjöld til menntamála hafi aukist að raungildi hér á landi á undanförnum árum og áratugum. Það er rétt, ég efast ekki um það. Það hefur líka gert það hjá öðrum þjóðum. Ég minni á að sú þjóð sem ver hlutfallslega mestum fjármunum til heilbrigðisþjónustu í heiminum er Bandaríkjamenn. Ég hef nefnilega alltaf haft ákveðnar efasemdir um þennan mælikvarða.

Þegar um gæði þjónustunnar og aðgengi að henni er hins vegar að ræða þurfum við að fara varlega. Spurningin sem við veltum upp hér er að rannsókn fari fram á því hvaða kerfi hafi reynst best frá sjónarhóli þess sem nýtir þjónustuna, frá sjónarhóli þess sem greiðir fyrir hana, hvort sem það er notandinn beint eða skattborgarinn, og í þriðja lagi frá sjónarhóli þess sem veitir þjónustuna. Að sjálfsögðu viljum við taka þá lausn sem er hagstæðust, sem svarar öllum þessum spurningum játandi. Ef hv. þingmaður getur sannfært mig um það að breytingar sem hann vill standa fyrir — ef hann svarar öllum þessum spurningum játandi — skal ég hiklaust vera með honum í liði hvað það snertir.