135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[16:50]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki farið út í nein ítarleg svör um afleiðingar markaðsstefnu og einkavæðingarstefnu Sjálfstæðisflokksins, ekki síst ef við lítum til orkugeirans þar sem raforkuverðið hefur farið upp úr öllu valdi, nokkuð sem menn þekkja hvað best á landsbyggðinni. Sömu sögu er að segja af ýmsum þáttum heilbrigðisþjónustunnar sem hafa verið einkavæddir. Við þekkjum það líka sem erum sæmilega jarðtengd í íslensku samfélagi að þótt kaupmáttur hafi farið vaxandi á umliðnum árum er það erfiðara fyrir tekjulítinn mann að vera sjúkur núna en þegar Sjálfstæðisflokkurinn komst til valda 1991. Fyrir tekjulítinn einstakling og tekjulitla fjölskyldu er erfiðara að komast yfir húsnæði en það var 1991 þegar Sjálfstæðisflokkurinn komst til valda. Þetta eru því miður staðreyndir máls.

Hv. þingmaður sagði að það yrði eflaust létt verk fyrir kollega sinn, hæstv. heilbrigðisráðherra Guðlaug Þór Þórðarson, að sannfæra mig um að einkavæðing innan heilbrigðisþjónustunnar væri ódýrari og hagkvæmari kostur en samfélagslega rekin þjónusta. Á þessa lund var röksemdafærslan. Ef það er tilhlökkunarefni að sjá hæstv. ráðherra sannfæra mig um þetta er ekki síður tilhlökkunarefni hjá mér að sjá hvernig félagar hv. þingmanns í Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu, fulltrúar stjórnarmeirihlutans á þingi, taka þingmáli okkar, hvernig þeir afgreiða það, hvort þeir fallast á að fram fari málefnaleg rannsókn á afleiðingum þeirrar stefnu sem þeir boða.