135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[17:13]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt því ekki fram að einkavæðing bjargaði öllu og það ætti að afnema allan ríkisrekstur. Ég var bara að greina frá ákveðnum viðhorfum og sjónarmiðum og skoðunum sem ég hef haft í gegnum tíðina. Viðhorf mín hafa breyst. Eigum við að orða það þannig að þau hafi mildast? Ég get alveg séð fyrir mér og sé það og veit það að enda þótt fyrirtæki sé í eigu ríkisins er ekki þar með sagt að það sé illa rekið eða rekið með tapi eða að það hljóti að vera óhagkvæmt. Veldur hver á heldur. Það er fullt af einkafyrirtækjum og miklu fleiri einkafyrirtæki sem hafa lotið í lægra haldi á markaðnum, það er fullt af fyrirtækjum sem fara á hausinn þó að þau séu einkafyrirtæki. Það er eins í sambandi við ríkisreksturinn, sumt er vel gert innan ríkisins og annað ekki.

Það var umræða um daginn sem kom í kjölfar ummæla hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra varðandi fangelsismál, að opna möguleika á að reisa fangelsi á vegum einkaaðila. Það má náttúrlega ræða um slíka hluti fram og aftur en hvað hvetur menn til að koma með þessi orð? Er það vegna þess að þeir telja að fangelsin séu ekki í nógu góðum farvegi? Þetta eru hlutir sem við verðum að ræða og skoða með sanngirni en útiloka ekki hvorn þáttinn fyrir sig. Það getur verið að báðir kostirnir séu góðir, ríkisrekstur og einkarekstur.