135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[17:15]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við skulum aðeins átta okkur á því hver munurinn er á einkarekstri, opinberum rekstri og síðan rekstri sjálfseignarstofnana því að hér var rætt um öldrunarþjónustu og öldrunarstofnanir sem eru í ýmiss konar rekstrarformi. Maður hlýtur að spyrja: Hver er tilgangurinn með rekstri þessara stofnana annar en sá, sem ég hygg að sé í öllum tilfellum, að veita sem besta þjónustu fyrir það fé sem lagt er til starfseminnar?

Í einkarekstrinum er gengið út frá því að arður sé af því fé sem lagt er í reksturinn, að hagnaðarvon sé í rekstrinum. Sá hagnaður er þá tekinn út úr starfseminni og rennur í vasa fjárfestanna, eigendanna, úti í bæ. Það er auðvitað misjafnt hversu skýrt þetta er en við sjáum þetta mjög greinilega núna í stóru einkavæðingarmálunum. Í ríkisrekstri er gengið út frá því almennt að reka þjónustuna á kostnaðarverði og reyna að komast eins hagkvæmt frá henni og mögulegt er. Þegar um sjálfseignarstofnanir er að ræða þá er það kannski blanda af báðum leiðum. Menn mega ekki rugla því saman við einkarekstur vegna þess að ef einhver hagnaður verður af rekstri sjálfseignarstofnana, eins og Reykjalundar, eins og DAS, eins og Krabbameinsfélags Íslands o.fl., þá rennur sá hagnaður beina leið til þess að bæta þjónustuna en ekki í vasa fjárfesta úti í bæ. Þetta er munurinn, hv. þingmaður. Þetta eru grunnatriði sem við verðum að ganga út frá þegar við ræðum þessi mál. (Gripið fram í.)