135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[11:51]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var nú ósköp rýrt andsvar hjá hv. þingmanni. Hann svaraði fyrirspurn minni þannig að hann hefði gert athugasemdir við vinnubrögð í kringum fjárlagafrumvarpið og fjáraukalögin. Það er rétt. Ég tók eftir því. Hann gerði það. Það voru bara vinnubrögðin en ekkert efnislega um það sem talsmaður stjórnarandstöðunnar í ríkisfjármálum mundi vilja sjá öðruvísi. En kannski heyrum við það hér í dag í umræðum. Vonandi fáum við að heyra hvernig hv. þingmaður hefði haft þetta öðruvísi hefði hann verið í ríkisstjórn.

Það vakti líka athygli mína í þessu andsvari þingmannsins að hann er svolítið á flótta frá yfirlýsingum Vinstri grænna hingað til um Grímseyjarferjuna. Má ég minna þingmanninn á að hann og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson skrifuðu samgönguráðherra og samgöngunefnd þingsins bréf þar sem meðal annars var farið fram á að sá háttur yrði hafður á að hætta við smíði Grímseyjarferju og kaupa nýtt skip? Kannski hefur þingmaðurinn áttað sig á því núna í umræðum um þetta mál að þetta er ekki afstaða sem er stjórnarandstöðunni eða Vinstri grænum til framdráttar vegna þess að hún sýnir það sem ég kallaði í fyrra andsvari mínu popúlisma og er ekki sannfærandi þegar menn tala um ábyrgan ríkisrekstur og góða nýtingu opinberra fjármuna.