135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[13:08]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svörin. Það sem ég var einfaldlega að benda á var að víða í fjárlagafrumvarpinu má finna orðalag sem bendir til þess að stofnanir, sérstaklega á heilbrigðissviði, geti samið um fyrirkomulag. Mér sýnist að í fjárlagafrumvarpinu núna séu menn akkúrat að leggja upp með það að setja hingað og þangað inn heimildir sem gætu beinlínis nýst við það að nýta þessa 6. gr. heimild, hvort sem hún hefur verið lítið nýtt til þessa eða ekki.

Ég var því bara að vara við því að menn færu á þá braut án þess að fara í umræðu um stefnumótun um það hvert við viljum stefna með heilbrigðiskerfið og annað hitt, hvaða verkþættir það eru sem menn eru þá sammála um að útvista til einkaaðila sem taka að sér að framkvæma verkið.

Hæstv. ráðherra nefnir það að það komi heimildir síðar inn í fjárlög að því er varðar 6. gr. En ég verð að segja eins og er, ég hef ekki séð neina sérstaka heimild í fjárlögunum eða fjáraukalögunum núna fyrir þeim fjármunum sem verið er að verja til þess að klára þá umræddu Grímseyjarferju sem við höfum margoft rætt um. Ég bið hæstv. ráðherra að benda mér á hvar það standi.