135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:29]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst að hæstv. fjármálaráðherra eigi að koma hér og svara því sem til hans er beint. Hann hefur sérstakan áhuga á því hvort ég sé meira að hugsa um hagsmuni eða sjónarmið hafnanna á umræddu svæði. Auðvitað finnst mér málefni þeirra skipta máli. En fjármálaráðherra á hér að svara fyrir hönd ríkissjóðs og hann á að gera það hér á hinu háa Alþingi og svara alþingismönnum því sem um er spurt en ekki snúa út úr.

Ég segi bara að ef það er rétt sem fram kemur í skýrslu Almennu verkfræðistofunnar að það kosti hundruð milljóna að koma þessu svæði í kring, finnst fjármálaráðherra þá rétt að standa þannig að sölunni að sá sem á hugsanlega hæsta boð bjóði það án þess að hafa upplýsingar um hvað kunni að fylgja þegar eignin verður svo loksins seld? Mér finnst það ekki vera góð stjórnsýsla og mér finnst að fjármálaráðherra eigi ekki að vera stoltur af því.

Ég hvatti hann til þess hér í umræðu um fjárlög að fara í saumana á þessu máli. Hann hefur kannski gert það og kannski hrín það ekkert á hann þó að sveitarfélagið, Hvalfjarðarsveit, geri verulegar athugasemdir við málsmeðferð ríkisins. Ég ætla þess vegna að spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því, það kann vel að vera að það sé ekki venja hér á hv. Alþingi, en ég ætla að leyfa mér það samt, að spyrja hann að því: Hvenær er að vænta skriflegra svara fjármálaráðuneytisins við þeirri fyrirspurn sem hér liggur fyrir um þetta málefni?