135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[17:33]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Já, við ætlum að fella 275 millj. niður af handhöfum veiðiheimilda, útgefins aflamarks í þorski. Nú vill svo til að þetta er innan við 2 kr. á kíló sem þeir þurfa að borga fyrir veiðiheimildina, fyrir kílóið af þorski borga þeir innan við 2 kr. En þeir mega leigja þetta öðrum útgerðarmönnum. Eins og staðan er í dag er leigan verðlögð á 220–240 kr. kílóið og lítið sem ekkert framboð, hæstv. ráðherra. Það er dálítil skondin staða að við skulum þurfa að gera þetta í besta fiskveiðistjórnarkerfi í heimi, að staðan í þessari atvinnugrein skuli vera orðin svoleiðis að við þurfum að skera niður veiðileyfagjald þrátt fyrir að þeir geti leigt veiðiheimildir á þessu brjálæðislega verði. Þetta er bara eitt af mörgum dæmum sem er sjálfsagt að benda á og sýnir fáránleika þessa kerfis sem við búum við.