135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

brottfall vatnalaga.

8. mál
[20:00]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er vel við hæfi að ljúka deginum með umræðu um vatnsauðlindina. Þessi þingfundur hófst á umræðum um jarðhitann, orkuna og ráðstöfun þeirrar auðlindar. Ég held að mönnum eigi að vera orðið ljóst að það er eitt stærsta viðfangsefni stjórnmálamanna að ná niðurstöðu um nýtingarrétt á auðlindum lands og sjávar og hvernig eignarhaldi á þeim auðlindum verði háttað. Vatnið er þar engin undantekning. Það þarf að ganga frá löggjöf um það mál með tryggilegum hætti með almannahagsmuni í fyrirrúmi, rétt eins og menn þurfa að taka upp löggjöfina um stjórn fiskveiða sem hefur reynst svo illa að þrátt fyrir að lögin hafi verið í gildi í 20 ár eru enn þá yfir 70% landsmanna óánægð með þau og aðeins um 15% landsmanna ánægð með þau.

Auðlindamálin þarf að skoða öll í samhengi. Menn þurfa að koma sér niður á forgang í þeim efnum, hvaða hagsmuni menn setja ofar öðrum. Það þarf að grundvalla þau á almannahagsmunum. Rétt eins og er verið að breyta um meiri hluta í borgarstjórn Reykjavíkur vegna þess að það stóðst ekki að setja sérhagsmuni ofar almannahagsmunum hvað varðar ráðstöfun og eignarhald á orkuauðlindinni í gegnum Hitaveitu Suðurnesja stenst auðvitað ekki til lengdar að byggja löggjöf á sérhagsmunum í sjávarútvegi eða í virkjunarframkvæmdum, eða lög um vatn, hvort sem það er kalt eða volgt. Þetta er ekki hægt að sundurskilja auðlindamálin. Það þarf að setja samræmda stefnu með þessa grundvallarhagsmuni í fyrirrúmi.

Ég held, virðulegur forseti, að stjórnmálaflokkarnir verði að gangast við ábyrgð sinni í þessu efni. Það liggja fyrir nokkuð skýrir megindrættir ef við tökum þessi mál í heild sinni sem löggjöf á að grundvallast á og það er í fyrsta lagi að eignarhaldið á að vera þjóðareign. (Iðnrh.: Hvað segir Jón Magnússon um það?) Arðurinn af nýtingu auðlindanna á að renna til þjóðarinnar með skýrum hætti.

Það liggur fyrir, virðulegur forseti, að það er meiri hluti fyrir þessu viðhorfi á Alþingi Íslendinga. Það er skýr meiri hluti fyrir þessu viðhorfi meðal almennings og þeir sem ganga fram með þá stjórnmálastefnu að einkaeignarhagsmunir eigi að vera ofar almenningshagsmunum hvað varðar eignarhald og skiptingu arðs af auðlindum okkar eru í minni hluta. Því verða menn að gera sér grein fyrir sem eru í samstarfi við minnihlutasjónarmiðin að það felst mikil ábyrgð í að fleyta þeim áfram og gera þau að lögum þrátt fyrir að það séu minnihlutasjónarmið. Það gerðist með löggjöfina um stjórn fiskveiða. Það gerðist í skrefum vegna þess að sú löggjöf var þróuð í áföngum og þar urðu minnihlutasjónarmið ofan á og það hefur reynst mönnum erfitt að snúa því til baka. Sjálfsagt verður ærið verkefni að taka þá löggjöf upp til að færa hana að þeim almennu sjónarmiðum sem ég rakti.

Samfylkingin verður að gangast við þeirri ábyrgð sinni í ríkisstjórn, sem flokkur sem kynnir sem sína stefnu hin almennu viðhorf sem ég lýsti sem meirihlutaviðhorfum. Hún verður að gangast við þeirri ábyrgð sinni að koma í veg fyrir að minnihlutaviðhorfin, sem eru fyrst og fremst innan Sjálfstæðisflokksins, verði ofan á í löggjöf um auðlindanýtingu og eignarhald á auðlindum landsins. Samfylkingin getur ekki hlaupið frá því að hún mundi bera ábyrgð á löggjöf sem er í andstöðu við almennan vilja landsmanna. Þetta er verkefni sem liggur fyrir stjórnmálamönnum þjóðarinnar á næstu árum að útkljá. Þeir eiga að sameinast um almenningssjónarmiðin sem þau styðja. Þeir stjórnmálaflokkar sem hafa almannahagsmuni í fyrirrúmi í auðlindanýtingu eiga að taka höndum saman og móta þá löggjöf. Þeir eiga ekki að láta aðild sína að ríkisstjórn trufla það verk. Aðild að ríkisstjórn getur ekki verið svo mikilvæg að hún komi í veg fyrir nauðsynlega og skynsamlega löggjöf um auðlindanýtingu hér á landi.

Það er greinilegt á löggjöfinni um vatnið, sem sett var á á síðasta ári og er nú lagt til að verði frestað, að hún er þeim annmörkum háð að of mikið í henni byggist á minnihlutasjónarmiðum. Of mikið af einkaeignarlegum sjónarmiðum er inni í löggjöfinni til þess að um hana geti orðið friður. Samfylkingin verður ekki bara að beita sér fyrir því að fresta gildistöku laganna um eitt ár, hún verður líka að taka þátt í því með öðrum stjórnmálaflokkum hér á Alþingi að leiða fram hin almennu sjónarmið sem um þessi mál gilda í þjóðfélaginu.

Það er verkefni Samfylkingarinnar ásamt þeim flokkum sem eru í stjórnarandstöðu á þessu kjörtímabili. Það er mikið óhappaverk ef menn láta kjörtímabilið líða án þess að ganga frá útlínum í þeirri löggjöf og festa þau mál í sessi. Það kann að vera nauðsynlegt að gera breytingar á stjórnarskránni til þess að tryggja grundvöll löggjafarinnar og ég minni á, t.d. varðandi jarðhitann, að fluttar hafa verið á Alþingi breytingartillögur við afgreiðslu tillagna um breytingar á stjórnarskránni um að jarðhiti undir tilteknum metrafjölda undir yfirborði jarðar sé sameign þjóðarinnar eða þjóðareign en ekki eign landeigenda. Það er því alveg ljóst að færir lögfræðingar telja það færa leið að skilgreina slíkt sem þjóðareign. Ég hygg að það megi gera það líka með aflið í rennandi vatni þó að það sé á yfirborði. En það er hugsanlegt að einhverjar bætur þurfi að koma til. Það kann að þurfa að skoða nánar.

Aðalatriðið er að festa í sessi stefnu um hvernig eigi að nýta þessar auðlindir, að þær séu eign þjóðarinnar og að afraksturinn skiptist á milli þeirra sem stunda atvinnustarfsemina sem byggist á auðlindinni. Um það hygg ég að megi segja að sé líka almenn sátt, að þeir sem stunda þá atvinnustarfsemi eigi að vera einkaaðilar en afraksturinn og eignarhaldið verði á höndum þjóðarinnar og í höndum hins opinbera fyrir hennar hönd, virðulegi forseti.