135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

brottfall vatnalaga.

8. mál
[20:33]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til breytinga á vatnalögum, um það að fresta gildistökunni enn og aftur, nú til 1. nóvember 2008.

(Forseti (EMS): Ég vil benda frummælanda á að við erum að ræða núna um …)

... brottfall. Já, við ræðum hér brottfall vatnalaga.

En hér er einnig annað frumvarp sem var rætt fyrr og var um frestun á gildistökuákvæðum. Það er nú einu sinni þannig vaxið að þessi lög voru mikið deilumál vorið 2006. Þá var gert um það sérstakt samkomulag að málinu skyldi frestað og skipuð yrði sérstök nefnd til þess að vinna að niðurstöðu þess. Nú er sem sagt lagt til í frumvarpi, 1. flutningsmaður er Steingrímur J. Sigfússon, að lögin skuli falla úr gildi.

Það er í nokkru samræmi við það sem sá sem hér stendur hélt meðal annarra fram í umræðunni vorið 2006, að ekki væri ástæða til að flýta sér við að setja ný vatnalög og að þau lög sem sett voru og eru frá 1923, með síðari breytingum, hafi að mörgu leyti reynst okkur vel. Ekki væri ástæða til þess að flýta sér, einkum þar sem ríkisstjórnin hélt því þá fram að fyrst og fremst væri um formbreytingu á lögunum að ræða.

Hæstv. forseti. Ég held að óhætt sé að segja að umræðan í þjóðfélaginu nú um stundir hafi leitt í ljós að nokkur vakning er með þjóðinni um það að hún vilji halda í auðlindir sínar. Frjálslyndi flokkurinn hefur barist fyrir því alla sína tíð að auðlindir til sjávar væru sameign þjóðarinnar og að eingöngu væri verið að tala um nýtingarrétt en ekki það form að handhafar veiðiréttarins hafi nánast öll völd og allar heimildir með þá úthlutun og þau réttindi eins og hefur verið að gerast. Handhafar veiðiréttarins geta selt þær sín á milli, leigt þær sín á milli o.s.frv. Fært þær milli byggðarlaga eftir eigin geðþótta eða selt þær milli byggðarlaga eftir eigin geðþótta. Um þetta hafa hafa staðið miklar deilur, hæstv. forseti, þ.e. um sameign auðlindarinnar í hafinu, fiskinn í sjónum.

Þær deilur hafa staðið lengi og þeim er væntanlega ekkert að ljúka á næstunni. Það er alveg ljóst að við í Frjálslynda flokknum munum halda áfram að standa vaktina í því máli og halda fram þeim skoðunum okkar að þau réttindi eigi að vera þjóðarinnar og nýtingarréttinn eigi að skipa með lögum og reglum en ekki að þeir sem hafa nýtingarréttinn hafi þar fénýtingarrétt. Stefna Frjálslynda flokksins er ljós og hefur verið það alla tíð. Við höfum viljað afnema kvótakerfið eins og það hefur verið.

Umræðan um nýtingu á auðlindum í jörðu og vatni, á og í jörðu, heitu og köldu vatni, ber með sér að þjóðin er að átta sig á því að frjálshyggjuliðið vill búa til einkaeignarrétt á þessum auðlindum. Að einkaaðilar geti átt auðlindirnar í jörðu, heitt eða kalt vatn, og farið með þær að eigin geðþótta. Og jafnvel, eins og umræðan hefur verið undanfarna daga, að þann eignar- og nýtingarrétt, eins og í Hitaveitu Suðurnesja, sé hægt að setja í sérstök útrásarfyrirtæki sem eigi fyrst og fremst að standa að fjárfestingum á erlendum markaði, og þar eigi sem sagt að leggja þennan rétt til sem eignarpart til þess að gera þau fyrirtæki meira aðlaðandi. Fjárfestarnir eru komnir á fulla ferð og farnir að sækjast eftir auði og völdum og einkanlega því að tryggja sér góða kaupréttarsamninga og eignarhald.

Ég tek undir þau orð hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar í umræðunni hér í kvöld og einnig hv. þm. Ögmundar Jónassonar, að full ástæða sé til þess að taka öll þessi mál til gaumgæfilegrar umfjöllunar, um réttindi þjóðarinnar til auðlinda sinna, til sjávar, sveita, fjalla og niðri í jörð. Og að sérstaklega verði tekist á við það að fara í gegnum þá réttarstöðu alla saman.

Ég held að fullt tilefni sé til þess, hæstv. forseti, og kom hér eingöngu upp til að tjá þessa skoðun mína. Ég vænti þess að þjóðin sé sífellt betur að átta sig á því að málstaður Frjálslynda flokksins í gegnum árin hefur verið réttur. Fólk skilur að við höfum verið að tala um almannahagsmuni að þessu leyti þó við séum vissulega þeirrar gerðar að vilja nýta orkuauðlindirnar til hagsbóta fyrir þjóðina. Við erum ekki þar með að segja að þessar grunnauðlindir þjóðarinnar eigi að vera einkaeignarréttur fárra sem hafi af því allan auð og arð.