135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:22]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæsv. forseti. Er orðið bannað í umræðum á þingi að spyrja hverjir hagnist á tiltekinni lagabreytingu og þegar verið er að fjalla um verslunarhagsmuni að beina þeirri spurningu til flutningsmanna hverjir hagnist á tillögum þeirra og hverjir kunni síður að hafa hag af? Ég minni hv. þingmann á að ég fagnaði því sérstaklega þegar stjórnmálamönnum auðnaðist að finna hugsjónum sínum verðugan farveg. Ég vék að þessari miklu baráttu í því ljósi að hér væru menn að berjast í miklu hugsjónastarfi.

Ég vísa því algerlega til föðurhúsanna að ég nálgist ekki málið á málefnalegan hátt. Ég er að reyna að tína til þau rök sem flutningsmenn sjálfir vísa til, byggðasjónarmið og hagkvæmni þess að hverfa frá opinberum rekstri yfir í einkarekstur. Eru það ekki röksemdir sem vísað er til? Ég er að ræða efnislega hvernig þetta komi út fyrir neytandann, bæði í fjölbreytni og í verðlagi. Ég er að vísa til forvarnasjónarmiða. Ég er að vísa til þeirrar umræðu sem farið hefur fram á Íslandi um langt skeið, hvernig við eigum að haga sölu á áfengi, hvernig við eigum að haga forvörnum á þessu sviði. Þetta er að sjálfsögðu málefnaleg umræða og málefnalegt innlegg. Ég held að hv. 1. flutningsmaður málsins komist ekki hjá því að viðurkenna það.