135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

afgreiðsla iðnaðarnefndar á frumvörpum til vatnalaga.

[13:43]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Mér finnst heldur lítið leggjast fyrir málflutning hæstv. iðnaðarráðherra hér. Það er búið að gefa skýringar á því af hverju nefndin var ekki skipuð og það gerði fyrrverandi iðnaðarráðherra áðan. (Gripið fram í.) Það komu ekki tilnefningar og þess vegna var nefndin ekki skipuð. (Iðnrh.: Það komu víst tilnefningar.) Og hér dirfist hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson að segja að Framsóknarflokkurinn hafi ekki staðið við orð sín og reyna að gera lítið úr flokknum með þeim hætti. Þá vil ég benda á að hæstv. iðnaðarráðherra hefur ekki meiri burði en svo að hann stendur ekki við það sem hann sagði á síðasta kjörtímabili. Þá var þessum lögum fundið allt til foráttu, allt, og það átti að fella þau úr gildi. En það er ekki verið að gera það núna (Gripið fram í.) þannig að Samfylkingin stendur aldeilis ekki við sitt.

Það er alveg ljóst að það er himinn og haf á milli stjórnarflokkanna í málinu. Sjálfstæðisflokkurinn vill hafa lögin eins og þau eru, Samfylkingin vill þau ekki svona, vill fella þau úr gildi. Og nú á að kaupa sér tíma í ár og reyna að ná samkomulagi. Það verður gaman að sjá hvor flokkurinn ætlar að lúffa. Það verður gaman að sjá það. Ætli það gæti orðið hæstv. iðnaðarráðherra sem þyrfti að lúffa í þessu máli?