135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

95. mál
[16:00]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir áherslurnar um mikilvægi Fjármálaeftirlitsins og að það geti bæði af fjárhagslegum sökum og einnig faglegum sinnt hlutverki sínu í þessum harða heimi sem nú er. Ég vil í þessu sambandi líka víkja að sparisjóðunum og ég þakka hæstv. viðskiptaráðherra fyrir þau orð sem hann hefur hér látið falla um að á þessum málum þurfi að taka eins og hann hefur hér rakið.

Fyrir mér er þetta með sparisjóðina stórmál. Núna er verið að ráðast inn á þær félagslegu stofnanir sem sparisjóðirnir eru, voru byggðir upp af samfélögunum, ekki til að græða á þeim fyrir einstaklingana heldur til að samfélagið nyti ávaxtanna og styrkti það. Allt í einu koma svo fjármálamenn, fulltrúar græðgisaflanna, og brjótast inn í sparisjóðina til þess að ná í fjármagnið.

Jú, þeir segja að þetta sé samkvæmt lögum, en ég spyr: Er þetta siðferðislega verjandi? Þess vegna vil ég eiginlega varpa því til hæstv. ráðherra hvort ekki eigi líka að gera siðferðislegar kröfur og hvort Fjármálaeftirlitið eigi ekki að huga að siðferðislegum kröfum í fjármálaheiminum, ekki það að vegna þess að lög ekki banna það sé hægt að fara inn með alls konar hætti og komast yfir fjármuni og eigur samfélagsins.

Fyrir mér er sparisjóður sparisjóður. Ef honum er breytt í hlutafélag er hann ekki lengur sparisjóður. Mér finnst að þá ætti að breyta lögum þannig að þeir sem væru ekki sparisjóðir ættu ekki að hafa heimild til þess að hafa sparisjóðsnafnið í lögum sínum og þar með sigla undir fölsku flaggi.