135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:34]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Árna Johnsens og mér þótti hún eiginlega á öðrum nótum en það málefni sem við ræðum hér. Það er áhugavert og mjög gagnlegt að ræða áfengismál almennt, mér fannst þingmaðurinn vera meira á þeirri línu en að ræða það sem við erum að tala um hér, hvort við eigum að leyfa áfengi í búðum. Það er ekki þannig að flutningsmenn frumvarpsins séu að tala gegn forvörnum eins og þingmaðurinn er að ýja að, alls ekki.

Mig langar að spyrja þingmanninn að því hreint út hvort hann telji að frumvarpið grafi undan forvarnastarfi í landinu, hvort hann telji að með því séum við að fara langt til baka í forvarnastarfi. Ég vil bara fá hreint svar við því.

Eins langar mig að spyrja þingmanninn — mér fannst athyglisvert að hann nefndi sérstaklega ástandið í Evrópu, sagði að Evrópa væri komin yfir strikið. Ég skil það þannig að menn drekki þá of mikið í Evrópu. (ÁJ: Í framleiðslu vína.) Já, komnir yfir strikið. Hvað meinar hv. þingmaður með því? Er það nú ekki þannig í því samfélagi sem við höfum skapað hér að menn neyta vara í meira mæli en áður hefur verið? Á það ekki við um ýmsar aðrar vörur? Á það ekki við um bíla, á það ekki við um gos og ýmislegt annað? Af hverju heldur hv. þingmaður að það sé eitthvað öðruvísi með þetta en aðrar vörur?

Það væri virkilega fróðlegt ef þingmaðurinn vildi útskýra þetta fyrir mér vegna þess að ég bara skil það ekki.