135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:47]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það er vitaskuld hægt að nálgast það viðfangsefni sem hér er til umfjöllunar frá mörgum mismunandi hliðum og það hefur berlega komið í ljós í þeirri umræðu sem þegar hefur farið fram að menn líta á það býsna ólíkum augum. Það er hægt að spyrja sig að því hvort þetta mál snúist um frelsi og þá frelsi hverra og til hvaða athafna. Það má líka spyrja sig að því hvort þetta snúist um nútímalega verslunarhætti og gott aðgengi að vörum og þá um leið hvort þau rök eigi við um áfengi eins og hér er lagt til. Síðan má velta því fyrir sér hvort þetta mál snúist kannski um áfengispólitík og lýðheilsu.

Eins og fram hefur komið í umræðunni til þessa horfa menn býsna ólíkum augum á þetta mál. Ég get sagt fyrir sjálfan mig að ég nálgast þetta mál ekki endilega út frá einhverri harðri skoðun um það hvort ég vilji meira eða minna frelsi í verslunarháttum. Ég skil alveg þau sjónarmið sem þar liggja að baki og sem flutningsmenn frumvarpsins eru bersýnilega að tala fyrir svona í öllum meginatriðum. Ég hef í sjálfu sér ekkert óskaplega mikið út á það að setja að menn hafi þau sjónarmið að það eigi að auka valfrelsið í þessum atriðum og þess vegna að auka aðgengi að þessari vöru. Ég skil alveg að það eru ákveðin sjónarmið sem þar liggja að baki en það er ekki þar með sagt að maður sé sammála þeim öllum.

Ég vil ekki gera lítið úr þeim þætti sem lýtur að heilbrigðismálum og lýðheilsu almennt og þeirri áfengispólitík sem við rekum. Það er bersýnilegt að tilgangur frumvarpsins er að knýja á um að áfengi, þ.e. léttvín og bjór, verði selt í matvöruverslunum og vitaskuld getur maður spurt sig að því hvort það sé afar brýnt þjóðfélagsmál. Jafnvel væri hægt að geta sér þess til að hér sé um tískumál að ræða sem sé vel til vinsælda fallið, að minnsta kosti í ákveðnum hópum, en ég ætla samt ekki að halda því fram að það sé það sem vakir fyrir flutningsmönnum frumvarpsins.

Það er áreiðanlegt að áfengismenning Íslendinga — og ég leyfi mér að segja áfengismenning þrátt fyrir að hv. þm. nafni minn Johnsen hafi ekki viljað tala um menningu í þessu samhengi — hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og áratugum. Það þýðir hins vegar ekki að áfengisneysla hafi minnkað nema síður sé. Það hefur komið fram í upplýsingum sem við þingmenn höfum fengið, m.a. frá Lýðheilsustöð, að síðustu tvo áratugi hafi neysla Íslendinga á hreinum vínanda aukist um 75%. Einkum er neysla ungs fólks á aldrinum 18–34 ára að aukast og ekki síst meðal ungra karla.

Á sama tíma hefur ofbeldi hvers konar aukist og það er mikið kvartað yfir ástandi mála, ekki síst hér í höfuðborginni og varla á bætandi. Nú geta menn velt því fyrir sér hvort samhengi sé þarna á milli. Ég tel að samhengið sé augljóst þarna á milli en um það geta áreiðanlega verið skiptar skoðanir.

Ég vil sem sagt ekki líta á þetta sem einangrað mál, sem spurningu um að auka aðgengi og frelsi. Raunar eru mikil áhöld um að þetta mál, nái það fram að ganga, mundi þýða betra aðgengi t.d. á landsbyggðinni. Það getur allt eins verið að framboð minnki frá því sem nú er, um það er ekki gott að segja. Í umræðunni hér hafa þegar verið færð rök fyrir því, sem ég tel sannfærandi, að framgangur málsins mundi jafnvel þýða nýja einokun eða fákeppni tveggja risa á matvörumarkaði. Við þekkjum að þeir eru gjarnan með í framboði sínu vörur sem seljast vel, tiltölulega einhæft, fábrotið úrval, og hætt er við að það sama mundi eiga við um áfengið.

Svo geta menn líka velt því fyrir sér hvað sé að því fyrirkomulagi sem við búum við í dag, að áfengi sé selt í sérstökum verslunum. Er eitthvað sérstakt sem knýr á það að breyta því fyrirkomulagi? Við förum gjarnan í bókabúð til að kaupa okkur bækur, í skóbúð til að kaupa skó, apótek til að kaupa lyf, í blómabúð til að kaupa blóm og er ekki bara fínt að fara í vínbúð til að kaupa vín? (Gripið fram í.) Ríkisbúð, já. Ég er alls ekki á móti ríkisverslun. Ef hv. þingmaður hefur haldið að ég væri sérstaklega andvígur ríkisverslunum er það mikill misskilningur, hann hefur algjörlega misskilið það. (Gripið fram í.) Nei, það er nefnilega ekkert endilega upplagt að gera það og þá get ég komið að því. (Gripið fram í.) Ég bið nú hv. þingmann að halda ró sinni hér í þingsalnum, virðulegi forseti, að hann fari ekki algjörlega á límingunum. Ég vona að hann sé ekki á miklu lími en það er svo annað mál. (Gripið fram í.) Ég bara bað hann um að fara ekki á límingunum.

Ég vil einfaldlega segja að það er ekkert að því fyrirkomulagi sem við búum við í dag, að fólk fari í sérstakar vínbúðir til þess að kaupa vín. Menn fara gjarnan ekkert í vínbúðina nema það sé beinlínis ásetningur að fara og kaupa sér vín. Ég held nefnilega að þessu yrði öðruvísi farið ef vín væri á boðstólum í venjulegum matvöruverslunum. Vín í matvöruverslunum mun, að mínu mati, óhjákvæmilega auka aðgengi að áfengi og þar með auka neyslu þess. Mér finnst tilgangslaust að halda öðru fram og það kann vel að vera að flutningsmenn þessa frumvarps haldi öðru fram. En ég er sannfærður um að aukið aðgengi muni auka neyslu áfengis. Ég held að það hafi verið sagt hér í umræðunni að það sé gott að geta kippt með sér flösku af hvítvíni með fiskinum í fiskbúðinni eða rauðvíni með ostunum í ostabúðinni. Er það ekki einmitt það sem yrðu hugsanlega afleiðingarnar af samþykkt þessa frumvarps? Það er óskaplega þægilegt að geta kippt með sér einni flösku. (Gripið fram í.)

Nú ætla ég að segja það að ég hef sjálfur búið annars staðar en á Íslandi í níu ár í einum þremur eða fjórum öðrum löndum og þekki mismunandi hefðir og reglur í þessu sambandi. Ég er sannfærður um það af þeirri reynslu sem ég bý yfir að aukið aðgengi að áfengi mun auka neyslu þess. Ég segi þetta ekki vegna þess að ég sé einhver bindindismaður eða fanatískur á neyslu áfengis, það er alls ekki svo, en ég sé enga sérstaka ástæðu til þess að hvatt sé til þess, eða að ráðstafanir séu gerðar til þess, að neysla áfengis aukist. Það er vegna þess að ég set þetta í samhengi við heilbrigðismálin og ég held að flutningsmenn frumvarpsins hljóti að gera það líka í sjálfu sér. Þeir hljóta að átta sig á því að það er samhengi á milli þess hversu aðgengilegt áfengið er og hversu mikil neyslan verður. Ég trúi ekki öðru en að flutningsmenn frumvarpsins geri sér grein fyrir því.

Nú kann vel að vera að þeir séu þeirrar skoðunar að hitt sjónarmiðið vegi þyngra, að það eigi að vera frelsi til þess að kaupa áfengi í matvöruverslunum og að ríkið eigi ekki að hafa einkaleyfi á sölu þessarar vöru. Ég virði það sjónarmið, það er ekkert að því að menn hafi það sjónarmið. Ég er algjörlega ósammála því en það er bara annað mál. Frá mínum bæjardyrum séð vegur hitt sjónarmiðið mun þyngra, þ.e. spurningin um heilbrigðisstefnu, um lýðheilsupólitík.

Þá velti ég nú fyrir mér hvar hæstv. heilbrigðisráðherra er í allri þessari umræðu, sá ágæti maður, hæstv. heilbrigðisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson, sem lengi hefur barist fyrir framgangi þessa frumvarps. (Gripið fram í.) Já, það gæti verið áhugavert að leita eftir viðhorfum hæstv. byggðamálaráðherra í þessu máli, það væri áhugavert að fá hans sjónarmið inn í þessa umræðu, en ég velti því fyrir mér hvar hæstv. heilbrigðisráðherra elur manninn þegar þessi umræða fer fram. Mér þætti fróðlegt að vita hvort hann hefur skipt um skoðun hvað þetta mál snertir (Gripið fram í.) eftir að hann tók við embætti heilbrigðisráðherra eða hvort honum finnst það sérstaklega viðeigandi af heilbrigðisráðherra að tala fyrir framgangi þess. (Gripið fram í.)

Áfengi — og hér komum við kannski að hlut sem ágreiningur getur verið um milli flutningsmanna frumvarpsins og þeirra sem eru andvígir framgangi þess og það er spurningin um það hvort áfengi sé eins og hver önnur venjuleg neysluvara. Ég er þeirrar skoðunar að áfengi sé ekki eins og hver önnur neysluvara. Áfengi er vímugjafi í sjálfu sér og mér finnst rétt að segja það eins og það er, áfengi er vímugjafi, lögmætur vímugjafi hér á landi vissulega en vímugjafi engu að síður. Það hefur verið sagt í þessari umræðu: Við viljum treysta fólki til að taka sjálft afstöðu til þess hvers það neytir og hvers það neytir ekki. Gott og vel en hvað þá með aðra vímugjafa? Eigum við að treysta fólki fyrir þeim? Nei, við höfum tekið ákvörðun um það í okkar samfélagi að banna ákveðna vímugjafa, þannig að mér finnst ekki hægt að stilla þessu algjörlega upp með þessum hætti.

Það er kannski ekki síst ástæðan fyrir því að ég svara þessum frammíköllum ágætra flutningsmanna hér — og dugðu ekki minna en þrír af hv. flutningsmönnum — þegar þeir spyrja: En ríkisverslun? Ríkisverslun, segja þeir. (Gripið fram í: Þú segir ríkisverslun.) Nei, það voruð þið sem kölluðuð það fram í og vilduð spyrja mig að því hvort ég vildi þá ekki blómabúðina ríkisrekna líka. (Gripið fram í.) Það er þetta sem ég er að koma inn á. Áfengi er vímugjafi, og ég tel að full rök séu fyrir því að með þannig vöru, sem við höfum engu að síður ákveðið að sé lögmæt, eigi að viðhafa það fyrirkomulag sem við höfum sett hér á landi og búið við um langt skeið með Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, eins og reyndar er sums staðar í kringum okkur.

Í hefti sem okkur þingmönnum barst frá Lýðheilsustöð, hugsanlega í tilefni af því að þetta frumvarp var hér lagt fram, eru margvíslegar ágætar ábendingar um áfengi. Þetta er hefti sem ber heitið „Áfengi, engin venjuleg neysluvara“, og þar segir m.a. á einum stað, með leyfi forseta:

„Einkasala ríkisins á áfengi er dæmi um víðtæka leið til að stýra aðgengi að áfengi. Miklar líkur eru á að einkasala á áfengissölu dragi úr neyslu og tjóni sem af neyslunni getur hlotist. Þá benda niðurstöður til þess að heildarneysla áfengis aukist verði einkasölunni aflétt.“

Síðar segir áfram, með leyfi forseta:

„Kostnaðurinn við að hefta aðgang að áfengi er lítill miðað við þann kostnað sem getur hlotist af neyslu áfengis, sérstaklega ef neyslan er mikil. Mesti vandi við heftan aðgang að áfengi snýr að aukningu á ólöglega markaðnum, á hinn bóginn virðist sem aukningin á þeim vettvangi nái ekki að vega á móti þeim samdrætti sem verður á löglegri neyslu og þar með þeirri skaðsemi sem af henni getur hlotist.“

Ég tek þessar upplýsingar frá Lýðheilsustöð alvarlega, ég kýs að taka mark á þeim ábendingum sem þar koma fram og láta vafann vera þeim megin, láta þá sem halda þessu fram njóta vafans ef hann er einhver. Auðvitað geta menn komið hér og sagt að þetta sé ekki einhlítt og það séu ýmsar rannsóknir til sem bendi til ólíkra niðurstaðna og allt hvað eina. Ég kýs að taka þær upplýsingar sem Lýðheilsustöð lætur okkur í té alvarlega og vil gjarnan fara eftir þeim.

Það er líka athyglisvert að í bréfi sem Lýðheilsustöð hefur skrifað okkur segir, með leyfi forseta:

„Í greinargerð sem fylgir frumvarpi á 135. löggjafarþingi, þskj. 6, 6. mál, kemur fram að áfengisgjald fari stöðugt hækkandi á Íslandi. Ef skoðuð er frétt frá fjármálaráðuneytinu kemur hins vegar fram lækkun á raunvirði áfengis. Breyting á áfengisgjaldi af léttvíni og bjór átti sér síðast stað þann 1. júlí 1998. Frá því að sú breyting átti sér stað hefur vísitala neysluverðs hækkað. Ef miðað er við vísitölu neysluverðs hefur áfengisgjald af léttvíni og bjór því rýrnað að raunvirði sem nemur 33% á tímabilinu.“

Þetta segir Lýðheilsustöð og bendir þar á upplýsingar frá fjármálaráðuneyti. Þetta er á skjön við það sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu á bls. 4 þar sem segir að áfengisgjald hafi stöðugt hækkað hér á landi. Mér finnst mikilvægt að menn haldi réttum staðreyndum á lofti í þessu samhengi og þykir miður ef rangt er farið með í greinargerðinni miðað við þær upplýsingar sem Lýðheilsustöð heldur fram og ber fyrir sig fjármálaráðuneytið. Nú hef ég ekki getað sannreynt þetta sérstaklega en bendi á að þarna er ákveðið misræmi á ferðinni.

Ýmislegt gáfulegt hefur verið sagt í þessari umræðu og annað kannski síður eins og gengur. Í gær fóru t.d. fram hörð skoðanaskipti um einkavæðingu, einkavæðingu ágóðans af áfengissölunni meðan samfélagið sitji eftir með kostnaðinn. Ég ætla ekkert að fara sérstaklega í þetta, að minnsta kosti ekki við þessa umræðu, en ég vil undirstrika að ég nálgast þetta mál ekki út frá neinni sérstakri fanatískri skoðun varðandi neyslu áfengis nema síður sé. Áfengi er lögmætur varningur hér á landi þótt um vímuefni sé að ræða og ég tel að það eigi að vera aðgengilegt en það eigi ekki endilega að halda því sérstaklega að fólki. Ég tel að Alþingi verði að gera sér grein fyrir því að neysla áfengis hefur líka margvíslegar neikvæðar afleiðingar, bæði heilsutjón þeirra sem neyta þess í of miklum mæli, menn hafa bent á hluti eins og áfengi í umferðinni, ofbeldi og aðra slíka hluti sem tengjast neyslu áfengis og það er óumdeilt.

Mér finnst þess vegna mikilvægt að við hér á hv. Alþingi horfum ekki fram hjá þeim afleiðingum sem aukið aðgengi að áfengi mun óhjákvæmilega hafa og þeim samfélagslega kostnaði sem því fylgir. Þetta segi ég ekki til þess að vera með einhverjar predikanir eða eitthvað í þeim dúr, einhvern bindindisboðskap, sem er mér fjarri, heldur til að vekja athygli á að við sem njótum þess að neyta áfengis, og þykir það bara ágætt með steikinni eða fiskinum, ostinum eða hvað það nú er, við verðum líka að sýna samfélagslega ábyrgð. Við þurfum að vera meðvituð um að jafnvel þó að okkur finnist heppilegt að geta gripið með okkur flösku í næstu matvöruverslun þá fylgja þeirri stefnu samfélagslegar afleiðingar sem við verðum að hafa í huga, og við eigum að taka það alvarlega og gera okkur grein fyrir því. Það er þetta sem ég vil leggja áherslu á hér við þessa 1. umr. um þetta mál, það ræður afstöðu minni í málinu en ekki einhver sérstök andúð á neyslu áfengis almennt séð.