135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:56]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil leiðrétta það sem fram kom hjá hv. þingmanni um framgang málsins á fyrri þingum. Það var tekið úr nefnd á síðasta vorþingi þannig að það gekk til þings en kom hins vegar ekki til atkvæðagreiðslu. Þannig að það hefur ekki alla tíð verið svæft í nefnd. Það er svo önnur saga hvers vegna það gekk ekki til atkvæðagreiðslu. Ég hygg að það hafi nú bara verið vegna þess að ábyrgari menn í stjórnarflokkunum hafi séð að ekki var rétt að steypa þinginu í mikla umræðu um þetta mál á síðustu dögum þingsins á síðasta þingi kjörtímabilsins.

En ég hnýt aðeins um fullyrðingu hv. þingmanns um að frumvarpinu sé ekki beint gegn vímuefnavörnum. Síðast þegar þetta mál fór til umsagna komu umsagnir frá aðilum sem einbeita sér að vímuefnavörnum og slíkum málum, eins og Vímulaus æska. Það er afstaða framkvæmdastjórnar Vímulausrar æsku að með því að selja þessa vöru í matvöruverslun muni neysla aukast til muna í landinu svo ekki sé talað um að verð muni lækka með þeim afleiðingum sem þeir lýsa. Þannig að þeir sem eru í vímuefnavörnum eru andsnúnir þessu máli. Sama má segja um SÁÁ sem telur að þetta munu auka neyslu. Sama má segja um Áfengis- og vímuvarnaráð sem með ítarlegri umsögn hafnar frumvarpinu og Lýðheilsustöð sem er með mjög athyglisverða og ítarlega umsögn sem endar á því að sterklega sé varað við því að auka aðgengi að áfengi með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu og varað við þeim hugmyndum flutningsmanna að lækka áfengisgjald. Þannig að þetta eru aðilarnir sem fást við vímuefnavarnir og þeir hafna málinu. Með hvaða (Forseti hringir.) rökum getur hv. þingmaður blásið á þessar röksemdir?