135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

verklagsreglur við töku þvagsýna.

78. mál
[13:52]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Þetta er þörf fyrirspurn. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda að það er allt eins dómsmálaráðherra sem á að svara þessu. Það er algjörlega augljóst í mínum huga og allra sem þekkja til slíkra mála að þetta inngrip var brot á friðhelgi einkalífs sem varið er af stjórnarskránni, dýrmætustu persónuréttindi okkar. Ég neita því ekki að þegar úrskurður um sýnatöku er síðan fenginn er auðvitað æskilegt að hafa verklagsreglur og gott framtak hjá hv. samgönguráðherra að skipa nefnd til þess. Hér var um að ræða inngrip í friðhelgi einkalífs og það er alveg með ólíkindum að þetta skuli hafa gerst. Ég lít satt best að segja svo á að hér sé fremur um undantekningu í framkvæmd að ræða en hitt. En að umboðsmaður Alþingis skyldi sjálfur hafa frumkvæði að því að biðja um gögn í þessu máli sýnir hversu alvarlegt málið er.