135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

strandsiglingar.

96. mál
[13:58]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég hreyfi nú máli sem oft hefur verið rætt á Alþingi, um flutninga og flutningskostnað innan lands.

Eins og við vitum öll er nokkuð liðið síðan strandsiglingar lögðust af við landið og flutningar fara að langmestu leyti um þjóðvegina. Núverandi hæstv. samgönguráðherra hefur lengi verið áhugamaður um þetta mál og margoft rætt það á Alþingi. Flutningskostnaður var mikið til umræðu fyrir síðustu alþingiskosningar víða og stjórnmálaflokkarnir mörkuðu sér stefnu meira eða minna um þessi mál. Ef ég man rétt hafði Samfylkingin þá stefnu að endurvekja strandsiglingar sem hagkvæman kost til flutninga.

Nú er Kristján L. Möller, hinn mikli áhugamaður um flutningamál og flutningskostnað, orðinn hæstvirtur samgönguráðherra. Mér þætti því fróðlegt að heyra sjónarmið hans um þessi mál og hvort einhverjar fyrirætlanir eru um að taka á þessu. Fyrirspurnin sem ég hef lagt fram er út af fyrir sig mjög einföld og gæti hæstv. ráðherra hugsanlega svarað henni með einu litlu orði. En ég vil gjarnan heyra meira um þetta mál.

Fyrirspurnin hljóðar svo:

„Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að endurvekja strandsiglingar sem hagkvæman kost til flutninga?“