135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

strandsiglingar.

96. mál
[14:08]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá fyrirspurn sem hér kom fram og þá umræðu sem varð um hana þótt oft á tíðum hafi hún verið meiri áður fyrr.

Það er rétt sem hv. þm. Grétar Mar Jónsson fjallaði um áðan, með sjóflutninga olíu og bensíns. Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því að frá Reykjavík til Ísafjarðar eru farnar þrjár eða fjórar ferðir á viku með fullhlaðna bíla af bensíni sem er keyrt þjóðvegina vestur til Ísafjarðar, e.t.v. er á einhverjum tíma dagsins leyfilegt að fara í gegnum Hvalfjarðargöng með slíkan farm en á öðrum tíma þarf að fara fyrir Hvalfjörð.

Því hefur stundum verið haldið fram að sjóflutningar með olíu og bensín eftir strönd landsins séu niðurgreiddir af færeyska ríkinu vegna þess að skipið sem stundar þá er skráð í Færeyjum og nýtur þar skattakjara vegna alþjóðlegrar skipaskrár. Ég tel rétt að það komi fram. Ég þakka enn fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál upp og fagna því að hann sé kominn í hópinn sem hvatt hefur til umræðunnar á Alþingi um að taka upp strandsiglingar og flutningsjöfnun.

Ég get ekki látið hjá líða, vegna þess að hér átti að bera upp fyrirspurn frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni um flutningsjöfnun og flutningsstyrki, að nefna að ég er ákaflega ánægður með að sitja í ríkisstjórn sem setur 150 millj. kr., í fyrsta skipti í sögu landsins sem það er sett inn á fjárlög, til flutningsjöfnunar. Það er komið inn og mjór er mikils vísir.