135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

fangelsismál.

99. mál
[14:21]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir þessa fyrirspurn og tel að þetta sé mál sem er mjög þarft að ræða. Það er ekki bara að húsnæðið sé allsendis óviðunandi á Skólavörðustíg og í Kópavogi, stór hluti af húsnæðinu á Litla-Hrauni er óviðunandi líka eins og við hv. þm. Grétar Mar Jónsson fengum að kynnast í kosningabaráttunni í vor.

Ég vil vekja athygli á einu í sambandi við þessa umræðu sem eins og dómsmálaráðherra vék að er orðin 40 ára, þ.e. að það þurfi að koma upp nýju fangelsi á Reykjavíkursvæðinu. Á þeim 40 árum hefur mjög mikið gerst í samgöngumálum og með þeim hugmyndum sem núna eru í gangi um fjórbreiðan veg yfir Hellisheiði þá held ég að menn geti farið að endurskoða það hvort byggja þurfti svo stórt fangelsi á Hólmsheiðinni eins og talað hefur verið um eða hvort hægt sé að hafa meira af þeirri starfsemi fyrir austan fjall.

Þar (Forseti hringir.) fyrir utan vil ég ítreka fyrirspurn fyrirspyrjanda því ég er eiginlega litlu (Forseti hringir.) nær eftir svar dómsmálaráðherra um það hvort til standi að einkavæða í fangelsisrekstrinum (Forseti hringir.) sem ég vara mjög við.