135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

raforkulög.

129. mál
[17:12]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrist í þessum efnum að ég og hv. þingmaður getum hugmyndafræðilega fallist í faðma. Við erum meira og minna sammála um grundvallaratriði.

Svo það sé alveg skýrt hver afstaða iðnaðarráðherra er til þess samkeppnisumhverfis sem ríkir núna á raforkumarkaði, þá liggur það alveg ljóst fyrir og ég hef sagt það að ég tel að samkeppni sé ekki virk á þessum markaði. (Gripið fram í.) Nei. Ég tel þess vegna að grípa þurfi til aðgerða, hugsanlega breytinga á lögum, hugsanlega annarra breytinga sem lögin heimila til þess að geta leitt fram meiri samkeppnismátt á markaðnum.

Það gleður mig alveg stórkostlega sem frjálslyndan og umbótasinnaðan jafnaðarmann að ég heyri ekki betur en Vinstri hreyfingin – grænt framboð og hinir framsýnustu þingmenn í röðum þeirra séu mér alveg sammála. Ég heyri ekki betur en við séum sammála um að auka þurfi samkeppni á raforkumarkaði til þess að neytendur, sérstaklega og fyrst og fremst hinir smáu neytendur, fái notið betri kjara. Þannig er sagan svo undarleg að þetta mál sýnist hafa leitt mig í þessu máli að minnsta kosti rakleiðis í faðm hv. þingmanna Vinstri grænna. Það gleður mig óumræðilega að við skulum vera sammála um þetta tiltekna atriði. Það kemur mér kannski ekki algerlega á óvart, ég hef auðvitað heyrt það á málflutningi þeirra nú á haustþinginu að mér finnst sem blási miklu frísklegri vindar um Vinstri hreyfinguna – grænt framboð en áður og hún skelli ekki alveg jafnrækilega hurðum í lás þegar kemur að því að tala um samkeppni.