135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

hreyfiseðlar í heilbrigðiskerfinu.

32. mál
[15:26]
Hlusta

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem tóku hér til máls og tóku vel undir þetta þingmál og vil koma aðeins inn á nokkur atriði sem nefnd voru. Það var áhugavert að heyra hvað hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hafði að segja frá ráðstefnu SÍBS en þessir hreyfiseðlar hafa einmitt verið nokkuð til umræðu bæði hjá SÍBS og fleiri samtökum sem hafa verið að berjast fyrir því að þeim verði komið á. Hreyfiseðlarnir heita hreyfiseðlar vegna þess að þar er vísað á hreyfingu en þar eru líka leiðbeiningar alveg eins og lyfseðlar heita lyfseðlar en á lyfseðlum eru líka leiðbeiningar um það t.d. hvernig nota á lyfin. Hreyfiseðlarnir eru leiðbeiningarseðlar um það hvernig menn eiga að haga lífi sínu til að ná bata, að hreyfa sig, hvað þeir eiga að borða o.s.frv. Það eru ýmsar leiðbeiningar á þessum hreyfiseðlum.

Þegar ég var að undirbúa þetta þingmál í fyrsta skipti var ég með eyðublöðin frá Norðurlöndunum og hugðist setja þau á þingskjalið sem fylgigögn en það varð ekki úr því vegna þess að ekki var talið eðlilegt að vera með útlensk eyðublöð sem fylgiskjal á þingmáli en þar kemur einmitt vel fram hvernig þessir hreyfiseðlar eru hugsaðir og hvað þeir fela í sér. Það er auðvitað eðlilegt að fólk geri sér ekki fyllilega grein fyrir því í fyrstu þegar það heyrir orðið „hreyfiseðill“ hvað felst í slíkri leið í heilbrigðiskerfinu. Þetta á alls ekki eingöngu við eldri borgara. Þó hafa þeir verið mikið notaðir þegar fólk fer að reskjast, enda er það oft þannig að fólk stirðnar með aldrinum ef það stundar ekki hreyfingu í gegnum lífið.

Það var áhugavert að heyra hjá hv. þm. Ellerti B. Schram um baráttu hans í íþróttahreyfingunni við að koma á útrás í hreyfingu en það er nefnilega svo merkilegt að við undirbúning á þessu þingmáli á sínum tíma kom í ljós að þegar menn voru að taka upp hreyfiseðlana á Norðurlöndunum varð um leið mikil vakning hjá íþróttafélögum, hjá sveitarfélögum þar sem farið var í svona útrás í hreyfingu til að auka heilbrigði íbúa sveitarfélaganna eða jafnvel landsmanna. Hver veit nema það verði svona útrás hér á landi ef við komum á hreyfiseðlum. Norðurlandaþjóðirnar voru með ýmis heiti á þessum útrásum þegar hreyfiseðlarnir voru settir á laggirnar. Ég man ekki nákvæmlega hvaða heiti var á þeim en það var margs konar útivistarátak, stafganga, gönguferðir og allt mögulegt sem íþróttafélögin og sveitarfélögin settu á laggirnar þegar hreyfiseðlaumræðan var sem mest í upphafi.

Það er alveg ljóst að það er sparnaður í því að þjóðin haldi góðri heilsu og heilbrigði, það sér hver maður, það þarf ekki einu sinni að segja það. Auðvitað mætti kannski frekar kalla heilbrigðiskerfi okkar veikindakerfi af því að þar er alltaf verið að bregðast við veikindum. Það er verið að bregðast við því þegar eitthvað hefur gefið sig í staðinn fyrir að við þurfum líka að hugsa um að heilbrigðiskerfið verði sannkallað heilbrigðiskerfi og berjast fyrir því að allir haldi heilbrigði sem lengst og þar kemur öll umræðan um forvarnirnar. Það er auðvitað það sem við verðum að beita okkur fyrir.

Varðandi hinar ýmsu tilraunir eða rannsóknir sem gerðar hafa verið og þá tilraun sem sagt er frá í þingmálinu um eldra fólk sem fór í vatnsleikfimi og þurfti síðan ekki að fara í liðskiptaaðgerð, þá er auðvitað geysilega mikilvægt fyrir einstaklinginn sjálfan að þurfa ekki að gangast undir aðgerð og allt það sem því fylgir fyrir utan hvað það kostar bæði einstaklinginn sjálfan, fjölskyldu hans og samfélagið. Það er því að öllu leyti jákvætt að reyna slíka leið.

Ég tek undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal, sem tók hressilega undir tillögu mína og ég þakka honum fyrir það, að auðvitað er rétt að lífskjör batna við það að grennast og eiga auðveldara með að hreyfa sig. Það er vissulega líka full ástæða til að huga að fíknum, við höfum ekki gert það nægilega. Það þarf að taka á málefnum hvers konar fíkla og ég tel að þeim málefnum hafi ekki verið gert nógu hátt undir höfði á Alþingi. Þótt ýmis fíknimál hafi verið rædd hér þá held ég að taka þurfi heildstætt á þeim og þó að ég sé kannski ekki alveg tilbúin að segja hvort ég sé sammála því að hægt eigi að vera að fólk afsali sér forræði til að komast til heilsu finnst mér full ástæða til að við ræðum sem flestar leiðir til að halda þjóðinni sem heilbrigðastri og fara ódýrari leiðir í því að ná heilsu þegar fólk er búið að missa hana einhverra hluta vegna.

Hæstv. forseti. Ég hvet enn og aftur hv. heilbrigðisnefnd, sem ég sit ekki í að þessu sinni en var þó búin að sitja þar í 12 ár, og félaga mína, hv. þingmenn sem sitja þar, til að afgreiða þetta mál út úr nefndinni. Hv. þm. Pétur H. Blöndal á sæti í nefndinni og ég treysti því að hann sjái til þess að málið komist út úr nefndinni og til síðari umræðu í þinginu og afgreiðslu.

Ég ætla að ljúka orðum mínum um þetta mál, ég gæti talað um það lengi því að það er um margt að ræða í þessum efnum en ég læt máli mínu lokið að sinni.