135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

lánamál og lánakjör einstaklinga.

20. mál
[17:49]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er augljóst mál, virðulegi forseti, og það vita þingmenn og hæstv. fyrrverandi viðskiptaráðherra manna best, að sé ekki samkeppni í markaðsumhverfi þá bitnar það á neytendum. Þess vegna er það ein af frumskyldum þeirra sem fást við þessi mál, m.a. í viðskiptaráðuneytinu, að sjá til þess, eða reyna að minnsta kosti sitt til að koma á fót samkeppni til þess að þeir sem eru á markaðnum og hafa fákeppnisstöðu, jafnvel einokunarstöðu, geti ekki nýtt sér hana á kostnað neytenda. Það hefur gerst á viðskiptabankamarkaðnum, að viðskiptabankarnir hafa ekki keppt um hylli almennings í viðskiptum. Það er hægt að skoða kjör þeirra á lánum til einstaklinga og það er engum blöðum um það að fletta. Það er engin samkeppni á milli þeirra um þessi viðskipti. Þeir snúa bökum saman um að okra á íslenskum almenningi.

Það er dapurlegt til þess að vita að árum saman hefur ríkisstjórnin og viðskiptaráðherra fyrir hennar hönd ekki haft burði til að taka á þessu með löggjöf eða aðgerðum sem eru til þess fallnar að koma á fót samkeppni, sem er skylda ráðherrans. Auðvitað má líka segja að það sé skylda þingsins. En ráðherrann hefur aðstöðuna umfram þingmennina og stuðning ríkisstjórnarinnar til þess og þegar það er látið ógert þá eru menn ekki að vinna vinnuna sína.

Það má vel vera að það sé best fyrir hv. þingmann að vera ekkert að svara því hvernig var með sölu Landsbankans. Það var nefnilega ekki allt selt. Út úr Landsbankanum var tekinn ákveðinn hluti og seldur sérstaklega eins og (Forseti hringir.) hv. þingmaður man.