135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

tekjustofnar sveitarfélaga.

146. mál
[11:06]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér er til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem efnislega gengur út á það að fella niður hlutfallstölur lágmarksútsvars í lögunum um tekjustofna sveitarfélaga.

Það má að sjálfsögðu horfa á þetta mál frá fleiri sjónarhornum. Annars vegar er hægt að horfa á þetta sem mál sem varðar sérstaklega sjálfsstjórn sveitarfélaganna og flutningsmaður frumvarpsins, hv. þm. Erla Ósk Ásgeirsdóttir, talaði m.a. um að það væri óeðlilegt að ríkið hefði afskipti af málefnum sveitarfélaganna með þeim hætti sem gert er í lögunum í dag um tekjustofna sveitarfélaga með ákvörðun um lágmarksútsvar og þess vegna ætti að fella það burt.

Nú má að sjálfsögðu spyrja sig: Ef mönnum er sérstaklega annt um sjálfsstjórn sveitarfélaga í skattamálefnum, af hverju er þá löggjafinn að ákveða hámarksútsvar? Er einhver sérstök ástæða til að setja ákvörðun um hámarksútsvar ef menn vilja ekki hafa ákvörðun um lágmarksútsvar? Það tíðkast sums staðar í kringum okkur á Norðurlöndunum að hafa engin ákvæði um hámarksútsvar sem sveitarfélögin geta lagt á. Kjörnum sveitarstjórnarfulltrúum er einfaldlega treyst til að taka þær ákvarðanir eins og um fjölmörg önnur mál sem sveitarfélögin taka ákvarðanir um. Ef okkur er annt um það sérstaklega að tryggja sjálfsstjórn sveitarfélaganna eru að mínu mati sömu rök til þess að fella brott hámarkið eins og lágmarkið. Mér finnst sem sagt að þarna verði að vera samræmi og þetta verði að hanga saman. En ekki bara annað hvort.

Hinn vinkillinn sem ég vil síðan koma að í þessari umræðu varðar tekjustofna og tekjur sveitarfélaganna almennt séð og möguleika þeirra til þess að sinna verkefnum sínum. Og það höfum við gert svo sem í haust, í umræðum um fjárlög, fjáraukalög og fleiri mál sem hér hafa verið til umfjöllunar, talað um tekjur sveitarfélaganna almennt séð og hvernig að þeim er búið. Þar held ég að megi bara segja að sveitarfélögin hafa um langt skeið búið við þröngan kost hvað tekjustofna varðar. Þar má fullyrða og með réttu að staða einstakra sveitarfélaga er misjöfn innbyrðis, réttilega, en þegar á heildina er litið hafa sveitarfélögin búið við þröngan kost og ríkisvaldið hefur ekki verið reiðubúið til að koma til raunverulegra viðræðna um það að lagfæra tekjustofna sveitarfélaga.

Sömuleiðis hefur það mjög verið gagnrýnt að verkefnum hefur verið ýtt í allt of ríkum mæli yfir á sveitarfélögin án þess að tekjustofnar fylgi. Stundum hafa verkefni verið færð með sérstökum samningum, líka um tekjustofna og það er vel og það er til fyrirmyndar að það sé gert, en í allt of ríkum mæli hefur það gerst að verkefnisskyldur hafa færst yfir á sveitarfélögin án þess að tekjustofnar hafi fylgt með.

Það er mjög mikilvægt að tekið sé á þessu máli. Við ræddum einmitt fyrir ekkert mörgum dögum þingsályktunartillögu frá hv. þingmönnum Framsóknarflokksins um tekjustofna sveitarfélaga og viðræður ríkisins við sveitarfélögin þar að lútandi. Þá kom líka fram, að mér fannst, skilningur á nauðsyn þess að taka á þessum málum heildstætt.

Til að lengja þessa umræðu ekki um of, 1. umr., segi ég bara að svo stöddu að ég tel að það þurfi að horfa á þetta frá tveimur sjónarhornum, annars vegar um tekjustofna sveitarfélaga almennt. Hvernig eru þeir? Hvernig er búið að sveitarfélögum? Hvernig geta þau sinnt sínum lögbundnu verkefnum með þá tekjustofna sem þau hafa í dag? Hins vegar má horfa á þetta út frá hugmyndafræðinni um sjálfsstjórn sveitarfélaganna og þá er það afstaða mín að það eigi að ganga það sama yfir lágmark og hámark í þessu efni. Ef menn vilja afnema lágmarkið eiga þeir að sjálfsögðu að afnema hámarkið sömuleiðis.