135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

155. mál
[12:46]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég eins og aðrir fagna mjög framlagningu þessa frumvarps, enda er ég meðflutningsmaður á því. Það var dálítið undarlegt að upplifa sem nýr þingmaður umræðuna sem fram fór um þetta mál hér í þingsölum í desember 2003. Umræðan snerist í raun og veru um allt annað en aðalatriði á þeim tíma. Fyrir umræðuna núna fór ég að rifja upp þessa umræðu frá í desember 2003 og kynna mér hana og sá að þá ræddu menn ekki grundvallaratriði og spurningum nýs þingmanns á þeim tíma var aldrei svarað, eins og t.d. hvers vegna þingmenn og ráðherrar ættu að hafa betri lífeyrisréttindi en aðrir landsmenn. Þeirri spurningu var ekki svarað. Slík umræða fór aldrei fram, menn voru að ræða eitthvað allt annað, t.d. var verið að væna menn um svik og annað slíkt.

Virðulegi forseti. Grundvallaratriði málsins er nefnilega sú spurning: Hvers vegna eiga þingmenn og ráðherrar að hafa betri lífeyrisréttindi en aðrir landsmenn? Ég tel að forsendur þess hafi breyst með breyttum vinnumarkaði, með breyttri samfélagsgerð. Það var hugsanlega þannig á árum áður að fyrrverandi ráðherrar eða þingmenn ættu erfiðara með að ganga í önnur störf. Það var kannski þannig en við sjáum að það hefur svo sannarlega breyst. Það eru mýmörg dæmi um það og ekki síst núna á allra síðustu árum, án þess að ég fari að tína til einhver nöfn, að þingmenn og ráðherrar hafi ekki átt í vandræðum með að ganga í störf úti í samfélaginu. Þeir eru, eins og t.d. á öðrum Norðurlöndum, beinlínis að verða eftirsóttir starfskraftar þegar starfstíma þeirra á Alþingi lýkur. Ég tel að forsendurnar fyrir því að vera með annars konar kerfi fyrir þingmenn og ráðherra séu brostnar og þess vegna hafi þetta verið ástæðulaus breyting sem gerð var á sínum tíma.

Ég tel líka að með breytingunni sem gerð var árið 2003 hafi menn verið að sigla gegn straumi tímans og fara gegn almennri þróun í kjaramálum á launamarkaði og í lífeyrismálum og þeirri þróun sem hefur átt sér stað á undanförnum árum og áratugum. Menn hafa almennt verið að reyna að draga úr sérreglum og sérréttindum og alls kyns duldum, ósýnilegum, ógagnsæjum tekjum og launum og flytja slíkt inn í hin almennu launakjör. Að auki hefur lífeyriskerfið þróast þannig að menn hafa nú tækifæri til að leggja fé í svokallaða séreignarsjóði eða viðbótarlífeyrissparnað og sama gildir um þingmenn í þeim efnum og aðra landsmenn. Þetta á auðvitað að verða þróunin, virðulegi forseti, og þess vegna tel ég að forsendur fyrir einhverjum sérréttindum, eða forréttindum eins og það er kallað, alþingismanna og ráðherra í eftirlaunamálum séu brostnar.

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið fer þetta mál til umfjöllunar í nefnd og ég fagna því mjög. Ég greiddi atkvæði gegn þessu máli á sínum tíma, árið 2003, ég tók þá afstöðu þá og hef staðið við það síðan að vera andvíg þessu máli. Það samrýmist mínum grundvallarlífsskoðunum að kjörin eigi að vera sem jöfnust og réttindin, eins og hv. þm. Árni Páll Árnason orðaði svo vel áðan, eigi að vera sambærileg á vinnumarkaðnum.