135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[16:13]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það þurfi kannski aðeins að hugsa þetta sem hv. þingmaður var að segja. Hann sagði í raun og veru að honum fyndist eðlilegt að ríkisstjórnin beitti bráðabirgðavaldi sínu án þess að kanna hvort þingmenn hennar styðji lagasetninguna. Ég vil leyfa mér að segja að ég held að það hafi bara verið eiginlega undantekningalaust áður fyrr, fyrir 1991, þegar útgáfa bráðabirgðalaga var algengari en síðar varð, að þá taldi ríkisstjórnin sér skylt að tryggja að fyrir bráðabirgðalögunum væri þingmeirihluti áður en þau voru sett, að öðrum kosti væri verið að blekkja forseta Íslands.

Ég held að menn megi ekki, í vörn sinni fyrir bráðabirgðalögum, fara inn á þær brautir að mæla fyrir því að ríkisstjórnin hafi valdið án tillits til afstöðu þingmanna fyrir fram. Þá er verið að samþykkja að ríkisstjórnin eða einstakir ráðherrar — því að ráðherra getur sett bráðabirgðalög án samþykkis ríkisstjórnar, það er rétt að það komi fram, þetta er fjölskipað stjórnvald þannig að ráðherra getur sett bráðabirgðalög án þess að spyrja aðra ráðherra í ríkisstjórninni — geti sett bráðabirgðalög, stillt þingmönnum stjórnarflokkanna upp við vegg og sagt: Annaðhvort styðjið þið þessi bráðabirgðalög eða þá að ríkisstjórnin er fallin. Það hljóta menn að sjá og viðurkenna vonandi að er ákaflega óheilbrigð útgáfa af þingbundinni ríkisstjórn.