135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

Árneshreppur.

75. mál
[12:38]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegur forseti. Það er vissulega rétt sem fram hefur komið í fyrirspurn og svari við henni að þó nokkuð hefur áunnist með samþykkt þingsályktunar í marsmánuði 2003 og menn hafa einbeitt sér að samgöngumálum og uppbyggingu á ferðaþjónustu. Það hefur verið vel gert sem komið er í þeim efnum á þessum tíma. Ég vil þó segja að ég tel að það þurfi töluvert meira átak til að koma málum í góða höfn, sérstaklega samgönguþættinum, því þótt það fjármagn sem varið hefur verið til endurbóta á veginum og mun verða á næstu árum sé umtalsvert þá er það ekki nema brot af því sem þarf eða hluti af því sem þarf til að koma sæmilega góðum vegi norður í Árneshrepp og ég hvet hæstv. ríkisstjórn til að taka betur á í þeim efnum.