135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

Árneshreppur.

75. mál
[12:45]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu og undirtektir svo langt sem þær ná. Ég vek athygli á því að það liggur fyrir mjög formleg og sérstæð samþykkt Alþingis sem framkvæmdarvaldinu er falið að framkvæma. Ég vísaði hér til orða fyrrverandi forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, sem sagði að þetta væri vilji þingsins og framkvæmdarvaldið hefur ekki neina ástæðu til þess að draga lappirnar hvað þetta varðar. Það liggur fyrir skýrsla, sem ég vitnaði til, sem skilað var af ráðherraskipaðri nefnd og hún vísar málinu til forsætisráðherra. Málið er í heild sinni á borði forsætisráðherra og ég skora á hæstv. ráðherra að lesa þó ekki væri nema inngang skýrslunnar.

Það má vera að ekki sé hægt að framkvæma allt í tillögunni og menn hafi sína skoðun á því en þar er þó ákveðið lagt til málanna, en skyldan hvílir á framkvæmdarvaldinu að grípa til aðgerða.

Ég er hér með bréf um fjarskiptamál í Árneshreppi sem hreppsnefndin hefur skrifað en hefur ekki enn verið svarað og ég hef einnig skrifað bréf um fjarskiptamál og óskað eftir svörum um það hvenær háhraðanet, GSM-samband, komist þar á.

Ég tel að okkur beri skylda til að hlutast til um og standa vörð um að treysta byggð í Árneshreppi. Þær aðgerðir sem hæstv. forsætisráðherra minntist á og eru almennar er einmitt getið í þessari skýrslu að komi utan við þær sértæku aðgerðir sem þar eru lagðar til.

Ég ítreka að ég þakka góð orð og (Forseti hringir.) treysti því að þetta verði gert þar sem við höfum núna ráðherra innan ríkisstjórnarinnar sem allir hafa tekið mjög sterkt (Forseti hringir.) til orða hvað varðar málefni Árneshrepps og ég skora á ríkisstjórnina að grípa til aðgerða.