135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

byggðarlög á Austurlandi sem standa utan áhrifasvæðis álversframkvæmda.

120. mál
[14:36]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er mjög gott að ljósið skuli vera að renna upp fyrir framsóknarmönnum meira að segja að álvers- og stórvirkjanaframkvæmdir séu ekki allsherjarpatentlausn í heilum landshlutum. Reynslan ein mun skera úr um hvaða viðspyrna stórframkvæmdirnar á Miðausturlandi verða í byggðarlegu tilliti einnig þar á því svæði. Hitt liggur þegar fyrir að jaðarbyggðir Austurlands hafa í litlu ef nokkru notið þessara framkvæmda og að sumu leyti goldið þeirra hvað varðar samkeppni um vinnuafl við þensluna á framkvæmdatíma á Miðausturlandi. Þannig er augljóst að Djúpivogur, Breiðdalsvík, Stöðvarfjörður, Seyðisfjörður, Borgarfjörður eystri og Vopnafjarðarsvæðið eiga í síst minni erfiðleikum nú hvað varðar atvinnumál og afkomu sveitarfélaga og íbúa en var fyrir upphaf þessara framkvæmda. Það er vonum seinna að menn vakni upp við þennan veruleika og fari fram á að eitthvað sé gert í málunum en ég minni á að sama má auðvitað segja um velflest sambærileg byggðarlög landsbyggðarinnar. Hér (Forseti hringir.) er ekki um séraustfirskan vanda að ræða í því tilliti að hin minni og dreifðari byggðarlög (Forseti hringir.) vítt og breitt um landið eiga í vök að verjast.