135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

stjórnunarkostnaður Ríkisútvarpsins ohf.

141. mál
[14:50]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Já, það er nefnilega ágætt að draga þessar tölur fram því að mér finnst ég þurfa að kalla fram hér í ræðustól þingsins að menn gæti ákveðinnar sanngirni við launasamanburð. Ég dró sérstaklega fram að um væri að ræða heildarlaun útvarpsstjóra, að eitt og annað væri reiknað inn í þau og það væru ekki nákvæmlega sambærilegar tölur.

Gott og vel, engu að síður hafa launin hækkað. Það er ekkert launungarmál að það blasti við þegar við ræddum þetta á sínum tíma að það yrði farið af stað í ákveðnar breytingar. Ég kann ekki við það að tala um silkihúfur, mér finnst vera talað niður til þess fólks sem hefur starfað á vegum Ríkisútvarpsins í áraraðir. Ég tel hins vegar mikilvægt að draga fram að rekstrarkostnaður við yfirstjórnina hefur lækkað. Og til hvers var leikurinn gerður? Hvert fara þeir fjármunir sem sparast hafa í slíkum rekstrarsparnaði? Þeir fara í það sem við beindum sjónum okkar að, þ.e. í innlenda dagskrá. Allir sem hafa fylgst með Ríkisútvarpinu taka eftir því að innlend dagskrá hefur stóraukist og ég spái því að hún muni gera það og stóreflast á næstu missirum. Til þess var leikurinn gerður, að reyna að nýta fjármagnið betur og setja það inn í það sem skiptir okkur máli varðandi menningardagskrá Ríkisútvarpsins.

Það var heldur aldrei neitt launungarmál að því var spáð að laun starfsmanna Ríkisútvarpsins mundu líklega nálgast almenna markaðinn. Það var rætt um það í ræðustól þingsins og víðar. Ég vil líka draga fram að starfsmennirnir sjálfir báðu sérstaklega um að kjarasamningarnir við sig yrðu óbreyttir fram yfir formbreytingu. Að sjálfsögðu var orðið við því.