135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:02]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fram kom í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að mikið hefði verið unnið að loftslagsmálum í utanríkisráðuneytinu. Ég hlýt að spyrja, hæstv. forseti, hvort það geti verið. Hvernig er staðan á ríkisstjórnarheimilinu varðandi loftslagsmál? Jú, þegar umhverfisþing var haldið sagði hæstv. umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir að ekki ætti að sækjast eftir svokölluðu íslensku ákvæði í næstu samningalotu. Þau orð voru látin falla án þess að búið væri að ræða málið í ríkisstjórn. Hvað gerist svo? Jú, hæstv. forsætisráðherra segir á Norðurlandaráðsþingi 30. október, í andsvari við mig og ég ætla að fá að lesa þetta orðrétt, virðulegi forseti, á norsku:

„Jeg synes den klausulen vi fikk siste gang, var veldig fornuftig. Den var også veldig verdifull for Island. Det som skjer i framtiden, har vi ikke tatt stilling til. Vi har ennå ikke drøftet dette i vår regjering, og vi har ikke tatt offisiell stilling til det vis-à-vis andre land.“

Hér segir að þetta hafi ekki verið rætt í ríkisstjórn en að þessi klásúla hafi verið skynsamleg.

Hvað gerist síðan? Þarna fer hæstv. forsætisráðherra varlega en í gær 7. nóvember segir hæstv. forsætisráðherra að Ísland eigi að sækja um þessa klásúlu, þetta íslenska ákvæði. Ég tel raunar að það sé skynsamleg og rétt afstaða. Þetta var mjög mikilvægt ákvæði og gott fyrir loftslagið eins og við vitum. Hæstv. forsætisráðherra skar úr um það í gær að sækja eigi um þessa klásúlu.

Hæstv. umhverfisráðherra bætir um betur í gær og segir: Nei, það á ekki að gera það. Ég hlýt að spyrja, virðulegi forseti: Hvað eru ráðherrarnir að hugsa? Þarna tala lykilráðherrar. Lykilráðherrarnir eru umhverfisráðherra, iðnaðarráðherra, forsætisráðherra og utanríkisráðherra og ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Er ekki verið að skaða samningsstöðu Íslands á erlendri grund með þessu tali út og suður í ríkisstjórninni?