135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:34]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna efnismikilli og góðri ræðu hæstv. utanríkisráðherra hér í upphafi. Mér fannst hún bera með sér heilsteypta sýn á utanríkismál, og þau viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir, og djúpan skilning á því hvernig við þurfum að nálgast verkefni á þessu sviði, og það hversu samtvinnuð þau eru þeim daglegu verkefnum sem við þurfum að vinna innan lands.

Heimsmál eru heimamál, sagði ráðherra í ræðunni, og fátt er betri lýsing á því umhverfi sem við búum við. Við búum við það að eftirspurn erlendra fjárfesta eftir útgáfu á skuldabréfum í íslenskum krónum hefur bein áhrif á stýrivaxtahækkanir Seðlabankans og hefur þar af leiðandi bein áhrif á gengi krónunnar sem svo aftur hefur bein áhrif á eftirspurn eftir því að koma hér og taka stöðu til skamms tíma í innlendum gjaldmiðli. Þessar staðreyndir um eftirspurn erlendra aðila eftir innlendum gjaldmiðli hafa lykiláhrif á þann sveigjanleika sem Seðlabankinn hefur í ákvörðun stýrivaxta og hafa líka lykiláhrif á svigrúm ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

Við sjáum mörg fleiri dæmi. Ráðherrann rakti sum og það er óþarfi að tína þau öll til. En grundvallaratriðið er að hnattvæðingin er staðreynd og hún er annað og meira en merkimiði. Hún er orðin raunveruleiki íslenskrar þjóðar með þeim hætti að efnahagsmál okkar og samfélagslíf eru samtvinnuð örlögum annarra þjóða og verkefni þau sem við viljum leysa á innanlandsvettvangi getum við í langflestum tilvikum ekki leyst með skilvirkum hætti nema í samstarfi við aðrar þjóðir eða á alþjóðlegum vettvangi. Við sem smáríki, sem á meira undir alþjóðaviðskiptum og fjölþættari milliríkjaviðskiptum en nokkru sinni fyrr, eigum mikið í húfi að þessu leyti. Líklega eiga fáar þjóðir meira undir þróun á alþjóðavettvangi að þessu leyti.

Ég get því ekki verið sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem nefndi áðan að það væri spurning um að hvaða leyti maður gæti verið á móti hnattvæðingunni. Ég held að við getum ekki verið á móti henni frekar en við getum verið á móti Esjunni. Hún er staðreynd. Hún er komin til að vera. En það sem við getum hins vegar gert sem þjóð er að reyna að hafa áhrif á þróun hnattvæðingarinnar, reyna að slá þá réttu tóna sem geta gert hnattvæðinguna þannig að hún færi ávinning sem víðast. Ég fagna sérstaklega umfjöllun í ræðu ráðherra um áherslur á mannréttindi og þróunarsamvinnu og hinar víðari stærðir í hinu hnattræna tilliti.

Þessi staðreynd krefst þess að við horfum með allt öðrum hætti á það hvernig við nálgumst heiminn en við höfum gert hingað til. Utanríkisþjónustan þarf að vera skilvirkari. Hún þarf að þjónusta hnattvætt efnahagslíf. Viðskiptalíf okkar er blessunarlega hnattvætt í síauknum mæli. Íslensk utanríkisþjónusta þarf að vera í stakk búin til að þjóna því hér eftir sem hingað til. Ef ekki hefði verið fyrir EES-samninginn hefði ekki verið um að ræða neina útrás í þeim skilningi sem við höfum upplifað á undanförnum árum. Ef ekki væri fyrir þéttriðið net fríverslunarsamninga, tvísköttunarsamninga og annarra viðskiptasamninga væri tal um ný tækifæri á erlendum vettvangi orðin tóm. Þetta net þarf að halda áfram að vinna og það þarf að halda áfram að tryggja íslenskum fyrirtækjum markaðsaðgang út um víða veröld. Utanríkisþjónustan þarf að hafa til að bera fagmennsku til þess að geta unnið þessi verk og í því skyni er mjög mikilvægt að við hlífum utanríkisþjónustunni við ófaglegum mannaráðningum og mörkum með skýrum hætti þá stefnu að fagmennska ráði í mannaráðningum í utanríkisþjónustunni til langframa. Við þurfum líka að tryggja skilvirkni utanríkisþjónustunnar þannig að hún verði í stakk búin til að bregðast við ólíkum þörfum á ólíkum tímum.

Hv. síðasti ræðumaður, 3. þm. Suðvest., formaður utanríkismálanefndar, gerði að umtalsefni hlutverk utanríkismálanefndar og þörf á breytingu á því. Ég tek undir hvert orð sem hann sagði um það atriði. Það er úrelt að líta svo á að hlutverk utanríkismálanefndar sé með einhverjum hætti annars eðlis en annarra þingnefnda. Verksvið framkvæmdarvaldsins, sem utanríkismálanefnd þarf að hafa eftirlit með, er í ríkum mæli á erlendri grundu og aðbúnaður nefndarinnar og svigrúm hennar þarf að helgast af því. Það er líka mjög mikilvægt, í ljósi þess hversu rík tenging er orðin milli verkefna á alþjóðavettvangi og verkefna innan lands, að utanríkismálanefnd hafi fullnægjandi tæki til að halda á sínu lýðræðislega eftirliti með framkvæmdarvaldinu á öllu starfssviði þess.

Ég fagna þeirri ákvörðun utanríkisráðherra að halda sérstaka ræðu um Evrópumál. Þau eru orðin það mikill hluti af og enn meiri hluti af viðfangsefnum okkar innan lands, að þau réttlæta fullkomlega sérstaka ræðu og sérstaka athugun.

Virðulegi forseti. Við stöndum á miklum tímamótum í öryggis- og varnarmálum landsins. Við höfum fengið upp í hendurnar mikið tækifæri. Eins og góður maður sagði: Það má kannski segja að við séum nú fyrst að verða sjálfstætt aðildarríki NATO. Af því höfum við mjög takmarkaða reynslu. Við höfum verið aðilar að NATO að meira og minna leyti á forsendum varnarsamstarfs sem nú hefur breytt um eðli. Það er vel. Það er vel að þetta gerist þegar við erum sem þjóð tilbúnari en áður til að standa í fæturna og axla ábyrgð okkar í alþjóðavæddum heimi. Við höfum fengið reynslu af alþjóðasamstarfi og við erum vel í stakk búin til að axla þessa ábyrgð.

Það er líka gaman að axla þessa ábyrgð nú þegar miklar breytingar eru að verða almennt á skilningi á öryggis- og varnarmálum. Hér kom fram áðan að Atlantshafsbandalagið hefur breytt um skilgreiningu og lítur á sig sem öryggisbandalag. Það er líka athyglisvert að t.d. okkar nána grannþjóð Danir hefur það ekki lengur sem skilgreint hlutverk síns herafla að verja danskt landsvæði. Landvarnir eru ekki verkefni danska hersins lengur. Danski heraflinn hefur það hlutverk að vinna í fjölþjóðlegu herliði verkefni til að styðja við öryggisgæslu og friðarframkvæmd utan Danmerkur.

Það er því eingöngu jákvætt að við skulum nálgast þetta verkefni á þessum tímum. Ég held líka að sú aukna áhersla sem hefur orðið á málefnum norðurslóða á síðustu árum sé okkur til gagns í þessu efni. Breyttar aðstæður í umhverfismálum með hlýnun hafsins og opnun nýrra siglingaleiða skapa auðvitað hættu en líka tækifæri og allt breytir þetta hinni landfræðilegu sýn og öryggismati á þessu svæði. Með öðrum orðum hefur hin „geostrategíska“ staða, með leyfi forseta, breyst.

Þessi atriði voru rædd á þingi Norðurlandaráðs í Ósló nú nýverið, m.a. fyrir tilverknað Vestnorræna ráðsins sem hafði vakið athygli á hvað þessi þróun þýddi fyrir björgunarmál á Norður-Atlantshafi, líka í ljósi þess að liðstyrks Bandaríkjamanna í Keflavík nýtur ekki lengur við hvað björgun varðar. Það er fagnaðarefni að utanríkisráðherra hefur vakið máls á þessum þáttum víða. Við sjáum líka að dómsmálaráðherra hefur verið að ræða möguleika á samstarfi landhelgisgæslna á Norður-Atlantshafi og allt er það mjög jákvætt.

Ég bind vonir við að við munum áfram á vettvangi Norðurlandaráðs og norræns samstarfs ná að ræða öryggismál með nýjum hætti. Þar eigum við langa hefð fyrir opinni og fordómalausri umræðu með mikilli þátttöku almannasamtaka og almennri þátttöku í umræðu. Við vísum best veginn með því að ræða öryggis- og varnarmál með opnum hætti og fordómalaust.

Ég fagna sérstaklega frumkvæði utanríkisráðherra, sem hún nefndi í ræðu sinni, að setja á fót sérstakan vettvang um samráð í öryggismálum. Ég verð líka að hrósa ráðherra fyrir það frumkvæði sem hún tók varðandi það að afla öryggisvottunar fyrir utanríkismálanefnd og gera utanríkismálanefnd þar með kleift að fá aðgang að gögnum, sem þrætt hefur verið um, frá Atlantshafsbandalaginu á fundi í morgun. Það er mjög mikilvægt að víkka með þessum hætti aðgang að upplýsingum um öryggis- og varnarmál. Við þurfum að treysta hvert öðru í umfjöllun um öryggis- og varnarmál, á það hefur skort í meira en hálfa öld. Það er eitt af brýnustu verkefnum okkar á næstu árum að byggja upp það traust og brúa það bil.

Virðulegi forseti. Mig langar að lokum að víkja örstutt að framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ég átti þess kost nýverið að sækja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og kynntist þá því starfi sem unnið hefur verið í New York til að vinna framboði Íslands brautargengi. Það vakti athygli mína að sjá hversu mikil sál er komin í þetta framboð og sjá að það er ekki lengur orðin tóm. Ísland stendur fyrir ákveðinni sýn og ákveðnum gildum og býður sig fram á þeim forsendum.

Mér þótti kærkomið nýmæli að Íslendingar töluðu stoltir af sögu sinni um það hverju þeir hefðu að miðla gagnvart fátækum ríkjum sem eru nú að feta sín fyrstu skref í átt frá nýlendukúgun til bjargálna. Það er vissulega sérstakt að geta sagt sögu Íslands sem hefur á undraskömmum tíma í öllu sögulegu samhengi náð að rísa úr mikilli fátækt til mikillar velmegunar án þess þó að feta leiðina sem margir postular boða fátækum ríkjum. Við höfum byggt upp velferðarkerfi, við höfum varið rétt þeirra sem lakast standa, við höfum tryggt mannréttindi kvenna og barna, við höfum náð að halda spillingu í lágmarki og á þeim grunni höfum við komist til efnahagslegrar velmegunar.

Það er mikils virði fyrir fátæk ríki að heyra þetta, ríki sem þurfa daginn út og daginn inn að sitja undir boðskap sjálfskipaðra postula sem segja að eina lausnin til framfara sé sú að hafa helst ekkert regluverk, byggja helst enga innviði og mæta hnattvæðingunni á forsendum fjármagnsins. Mér fannst mest til þess koma að sjá hversu heilsteyptan málflutning Íslendingar gátu haft í frammi og hversu vel honum var tekið af hálfu þessara ríkja.

Allt finnst mér þetta, þegar maður tekur það saman, bera vitni um sjálfstraust. Sjálfstraust okkar Íslendinga til þess að standa sjálfir fyrir því sem við erum og miðla af því sem við höfum án yfirlætis, án þess að ætla okkur að leysa hvers manns vanda á einni nóttu, en með því að leggja gott til, styðja við sprota, hjálpa til á hverjum vettvangi. Smáríki sem á allt undir milliríkjaviðskiptum má aldrei við því að hafa gluggann lokaðan gagnvart umheiminum. Það er mikilvægt að við höldum áfram að opna glugga, því fleiri því betra, því að enginn veit á endanum hvar það er sem skrautblómin ná að vaxa.