135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:51]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari skýringu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Ég held að við sjáum hnattvæðinguna með nokkuð líkum hætti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við gætum nákvæmlega að þessu og að við styðjum fátæk ríki til þess að byggja upp heilbrigð samfélög sem eru sjálfbær til lengri tíma litið. En í því samhengi má aldrei gleyma að ávinningur okkar af efnahagslegri uppbyggingu skapast ekki bara af því að við höfum byggt upp gott velferðarkerfi. Hann skapast líka af því að við höfum opnað glugga og leyft umtalsverðum trekk að myndast og við höfum skipulagt heilu og hálfu atvinnugreinarnar og satt að segja allt þjóðlífið, sérstaklega á síðustu árum, með upptöku evrópskra reglna, ekki með séríslenskum reglum, heldur með alþjóðlega viðurkenndu regluumhverfi. Það hefur gert það að verkum að fjárfestar okkar hafa átt tækifæri til að fara til annarra landa, skapa þar auð og flytja hann aftur heim. Við höfum búið í haginn til að aðrir geti komið og nýtt sér með sama hætti frelsi hér á Íslandi. Grundvallaratriðið held ég að sé að við eigum að byggja upp með nákvæmlega sama hætti og hv. þingmaður nefndi innviði fátækra ríkja og styðja þau til þess. Við verðum jafnframt að styðja þau til þess að hafa sjálfstraust og getu til að taka við erlendu fjármagni, bjóða það velkomið og byggja upp með þeim hætti atvinnulíf í löndunum. Lykilatriðið í því efni er að hafa gluggana býsna vel opna, leyfa umtalsverðum trekk að myndast þannig að vel gusti um.