135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:46]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ég ætla að koma inn á það sem mér fannst vanta í þessa annars ágætu ræðu um utanríkismál. Mér fannst vanta umræður um hafréttarsvæði sem við stöndum í stríði um við aðrar þjóðir, þ.e. Rockallsvæðið og Svalbarðasvæðið. Reyndar er eitt svæði í viðbót, hið svokallaða Jan Mayen svæði. Um það höfum við gert samninga sem ég reyndar tel að við þyrftum að endurskoða. Það er kannski ekki auðvelt. En sérstaklega finnst mér vanta hvernig þau mál standa sem snúa að hafréttarsáttmálanum eða réttara sagt: Hver er staða okkar varðandi hafréttarsáttmálann á Rockallsvæðinu og Svalbarðasvæðinu og hvað er í gangi þar? Er verið að reyna að semja eða þurfum við að fara með þetta fyrir hafréttardómstóllinn?

Mig langar líka að koma aðeins inn á þróunaraðstoðina sem við erum að auka fjárframlög okkar til og að vissu leyti er það gott mál. En áður en við gerum svo er oft gott að taka til á háaloftinu hjá sjálfum sér, þ.e. áður en maður byrjar að fara annað á meðan til Fjölskylduhjálpar Íslands koma íslenskar fjölskyldur — 1.400 fjölskyldur eru á skrá hjá Fjölskylduhjálp Íslands — sem þurfa að fá mataraðstoð í hverjum mánuði og jafnvel í hverri viku. Fleiri stofnanir á Íslandi eins og Mæðrastyrksnefnd, Rauði krossinn og Hjálparstarf kirkjunnar hjálpa Íslendingum sem hafa ekki efni á að brauðfæða sig eða geta ekki brauðfætt sig á þeim kjörum sem íslenskt þjóðfélag býður þeim upp á. Þetta er fólk sem á undir högg að sækja, þetta eru öryrkjar og þetta eru aldraðir sem eiga ekki í lífeyrissjóði eða hafa lent einhverra hluta vegna kannski út af þessum venjulega vegi. Þó er mikið af fullorðnu fólki sem hefur ekki úr neinu að moða nema því sem það fær frá Tryggingastofnun ríkisins og mér finnst kannski ekki hægt að setja mikla peninga í þróunaraðstoð á meðan við búum svona að okkar fólki hér heima.

Varðandi Keflavíkurflugvöll og það svæði þá er mengun þar, en samkvæmt samningunum sem voru gerðir við herinn á sínum tíma, 1952, skilst mér að herinn geti farið án þess að taka til eftir sig á Keflavíkurflugvallarsvæðinu sem þeir voru með og notuðu eða á svæðinu sem varnarmáladeild var með. Þá er ekkert óeðlilegt að maður spyrji: Hvað ætla íslensk stjórnvöld að gera í þeim efnum? Á þetta að fá að vera þarna áfram óbreytt eða verður ekki að fara í mikla vinnu við að hreinsa upp þessa mengun? Og þegar jafnvel farið er að tala um að byggja á þessum svæðum þar sem heræfingar voru stundaðar hér á árum áður þá hlýtur náttúrlega að vera spurning hvort ekki þurfi að gera stórátak í að hreinsa upp þá mengun sem er þarna á svæðinu.

Síðan er forvitnilegt að skoða kostnað utanríkisráðuneytisins á ýmsum sviðum. Hvað eru t.d. margir sendiherrar hjá íslensku utanríkisþjónustunni? Hvað eru mörg sendiráð og hvað eru margir sendiherrar sem hafa ekki sendiráð, þ.e. vinna hérna í utanríkisþjónustunni en búið samt að skipa sem sendiherra, en þeir hafa ekki sendiráð? Auðvitað brenna svona spurningar á manni og manni finnst bruðlið í kringum utanríkisþjónustuna vera mikið. Í rauninni væri hægt að skera verulega niður bæði í sendiráðum og sendiherrum. Við þurfum ekki alla þessa sendiherra. Þetta hefur verið svona geymslustöð fyrir útbrunna pólitíkusa sem ekki hafa treyst sér til þess að fara á almennan vinnumarkað. Þar af leiðandi hefur það verið bónus hjá þeim að komast í þá stöðu að vera sendiherra. Þetta er auðvitað ekki hlutur sem er hægt svo auðveldlega að sætta sig við og maður skilur ekki af hverju íslenskur almenningur á að borga þetta bruðl.

Hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kom hér upp og gerði grein fyrir að það væri vinna varðandi samstarf við Grænlendinga í gangi og ég fagna því. Ég fagna því að við skulum eiga möguleika á að gera einhverja samstarfssamninga við þá og vonandi getur það leitt til þess að við gætum hugsanlega fengið veiðirétt eða nýtingu á einhverjum afla eða fiskveiðum við Grænland og aðstoðað þá á ýmsum sviðum við að nýta sín fiskimið sem þeir gera ekki sjálfir nema að litlum hluta. Meðal annars eru þeir með mikinn og stóran samning við ESB sem er nú reyndar nýtt af íslenskum fyrirtækjum með búsetu í Þýskalandi og annars staðar í Evrópu. En auðvitað er mjög þarft fyrir okkur að kanna alla möguleika á því hvort við getum ekki aukið og bætt þetta samstarf við Grænlendingana því að þeir eru þrátt fyrir allt okkar næstu nágrannar þó að sárafáir Íslendingar hafi séð sér fært að heimsækja Grænlendinga sem ég held að væri mjög gott fyrir Íslendinga að gera í auknum mæli.

Að lokum vil ég segja að aðildarumsókn okkar að öryggisráðinu og barátta fyrir því að fá að fara í öryggisráðið er náttúrlega dæmi um ekkert annað en bruðl og vitleysu.