135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:16]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ræðuna. Ég get tekið undir margt sem í henni stendur og finnst að mörgu leyti að kveði við annan tón en í ræðum utanríkisráðherra frá síðustu þingum. Svo ég byrji nú á því að hæla hæstv. utanríkisráðherra langar mig til að nefna hérna atriði sem ég fagna sérstaklega í ræðu hennar, þá áherslu sem er lögð á lýðræðislega aðkomu fólks að umræðunni um utanríkismál. Ég nefni sérstaklega þá fundi sem hæstv. ráðherra minntist á í ræðu sinni, opna fundi sem haldnir eru með háskólunum og utanríkisráðuneytið hefur sem sagt komið á laggirnar og lagt sig eftir að verði haldnir. Svo sannarlega er ekki vanþörf á að stjórnvöld efni til samtals við fræðimenn og fagfólk vítt og breitt um samfélagið um utanríkismálin. Ég tel því að fundirnir sem hæstv. ráðherra gat um í ræðu sinni séu sannarlega af hinu góða, verulega þörf viðbót og til þess fallnir að dýpka umræðuna um utanríkismálin sem er ekki vanþörf á.

Annað sem ég tel vera til fyrirmyndar sem hæstv. ráðherra nefndi var starfshópurinn sem hún segist hafa skipað innan ráðuneytisins varðandi mannréttindamálin, varðandi heildstæða aðgerðaáætlun á sviði mannúðar-, friðar- og þróunarsamvinnumála. Það er sannarlega gott að hópur af því tagi skuli nú vera starfandi innan ráðuneytisins og verður forvitnilegt að sjá þær tillögur sem hann kemur til með að leggja fram. Ég vil þó í því sambandi brýna hæstv. utanríkisráðherra varðandi ýmsa þætti sem þarf að laga og leiðrétta frá því sem verið hefur. Ég nefni stefnu undangenginna ríkisstjórna varðandi Mannréttindaskrifstofu Íslands sem sinnir afar miklu og gagnlegu starfi í þágu mannréttindamála vítt og breitt, bæði innan lands en ekki síður hvað varðar útlönd og stöðu okkar í þeim efnum. Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka sérstaklega á því að Mannréttindaskrifstofa Íslands fái að standa af reisn við sitt hlutverk. Við sjáum þess ekki merki í fjárlagafrumvarpinu eins og það liggur fyrir en ég treysti því engu að síður að gerðar verði leiðréttingar í þeim málaflokki í þeirri vinnu sem stendur yfir í nefndum þingsins um fjárlögin.

Áhersla hæstv. utanríkisráðherra á þróunarmálin og þróunarsamvinnuna er líka góð og gefur okkur tilefni til að ætla að þar geti orðið einhverjar áherslubreytingar. Þegar hæstv. ráðherra segir að það ríði á að við styðjum þróunarlöndin til sjálfsbjargar í efnahags- og velferðarmálum verð ég þó að segja að það hefur auðvitað verið sagt áður. Við vitum að það er mjög erfitt að standa við þau orð. Í orði kveðnu viljum við ábyggilega öll tryggja að þróunarlöndin séu styrkt til sjálfsbjargar og við getum sjálfsagt öll tekið undir orð þeirra Sigríðar Snæbjörnsdóttur og Sigurðar Guðmundssonar, sem eru nýkomin heim frá Malaví, í viðtali við þau í Fréttablaðinu á sunnudaginn, 4. nóvember. Þau fjalla einmitt um þessa þætti. Þau hafa af eigin reynslu fundið út að það sé mikilvægara að kenna fátækum að búa til peninga en að ausa í þá fé. Ég vil vekja athygli hæstv. utanríkisráðherra á þessu viðtali og ummælum þeirra hjóna. Það er alveg ljóst að þeir sem koma á þessi svæði þar sem við beitum okkur í þróunarhjálp hafa lokið upp einum munni, oftar en einu sinni, í þessum efnum. Ég held að ákallið sem kemur fram í viðtalinu við þau Sigríði og Sigurð sé alveg í takti við það sem hæstv. ráðherra lýsir í ræðu sinni og þess vegna hvet ég til þess að við förum af alvöru í að finna leiðirnar. Hvernig getum við tryggt það að við séum ekki bara með einhliða fjáraustur til þróunarlandanna, heldur að við styrkjum fólkið til sjálfshjálpar eins og með því að hjálpa fólki að koma undir sig fótunum í atvinnurekstri, í litlum atvinnufyrirtækjum? Hvernig getum við tryggt að menntunin sé með þeim hætti að fólkið nái að mennta sig og þjóð sína? Svo þurfum við í þeim efnum líka að huga að því sem við samþykktum á nýafstöðnu Norðurlandaráðsþingi, að við, ríku þjóðirnar í vestri og Norður-Evrópu, verðum að gá að því að við megum ekki stunda það að sækjast í menntað fólk í álfum eins og Afríku þar sem atgervisflótti er gríðarlega mikill. Við verðum að tryggja að þessar þjóðir geti haldið sínu menntaða fólki hjá sér, til þess þurfum við að finna virkar leiðir til að hjálpa þróunarlöndunum til sjálfshjálpar.

Síðan eru ákveðin atriði í ræðu hæstv. utanríkisráðherra sem mig langar til að fara um nokkrum orðum og fá kannski upp frekari umræðu á þessum fundi um atriði sem varða hlutverk okkar, Íslendinga, í þeirri vegferð þjóða við þetta stóra verkefni sem við erum að vinna að núna, að reyna að auka gæði umhverfisins okkar og þá ekki síst lofthjúpsins. Umhverfismálin eru sameiginlegur málaflokkur sem þjóðir heims þurfa að taka á í sameiningu og hæstv. utanríkisráðherra hefur í ræðum sínum látið okkur skilja að hún beri hlutverk okkar þar mjög fyrir brjósti. Hún sagði t.d. í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í upphafi þessa þings að baráttan gegn loftslagsbreytingunum væri barátta fyrir öryggi okkar allra, sem ég er sammála henni um, og ég er líka sammála því að upp sé runninn tími aðgerða eins og hún hélt þá fram. Ég hef staðið í þeirri meiningu að þar ættum við samleið. Hæstv. utanríkisráðherra er þeirrar skoðunar að öll lönd heims þurfi að axla ábyrgð og sýna frumkvæði, eins og hún sagði í umræðunni um stefnuræðuna, og að þar ætti Ísland að vera í fararbroddi.

Nú spyr ég: Hvað á hæstv. utanríkisráðherra við þegar hún, eins og kemur líka fram í ræðu hennar nú, vill að Íslendingar standi í fararbroddi þjóða, ekki bara framarlega heldur beinlínis í fararbroddi, að við stöndum í spíssi umræðunnar og aðgerðanna í loftslagsmálunum? Ég verð að segja að í mínum huga eru verkefnin á umhverfissviðinu þau verkefni sem ríkisstjórnir þjóðríkja heims standa frammi fyrir að byrja að leysa af ákveðni. Það er ekki útséð um hvernig þessi markmið hinna framsæknustu ríkisstjórna koma til með að nást en ég er sammála því að við eigum að standa við hliðina á þeim þjóðum sem setja sér háleitust markmið.

Mér hefur fundist að þetta megi ekki verða orðin tóm. Mér finnst vísbendingar um að hér geti verið um slíkt að ræða því að eins og komið hefur fram í umræðunni hefur hæstv. forsætisráðherra lýst því hér yfir sem sinni skoðun að Íslendingar eigi að fara fram á alþjóðavettvangi með kröfuna um frekari undanþágur frá losunarmörkum loftslagssamningsins. Þar er hann í mótsögn við sjónarmið umhverfisráðherra og að því er virðist einnig sjónarmið hæstv. utanríkisráðherra.

Það skiptir verulegu máli, virðulegi forseti, að við Íslendingar stöndum af heiðarleika og trúverðugleika við hliðina á Norðurlandaþjóðunum í loftslagsmálunum á komandi missirum. Á Norðurlandaráðsþinginu sem haldið var í síðustu viku kom fram vilji ráðamanna allra norrænu þjóðanna til að gangast við þessum vanda og tryggja það að fundurinn í Kaupmannahöfn, sem hæstv. utanríkisráðherra nefndi í ræðu áðan, verði með þeim hætti að við getum gengið hnarreist frá honum. Í því sambandi lagði Norðurlandaráð upp ákveðnar línur sem er mikilvægt að ríkisstjórn Íslands fylgi eftir á næstu vikum og mánuðum þegar menn leggja fyrstu drögin að undirbúningi fundarins í Kaupmannahöfn. Þar eru t.d. verkefni sem varða menntun og fræðslu fólks á víðtækan hátt, þ.e. að Norðurlandaráð mæltist til þess í ályktun sem samþykkt var að staðið yrði fyrir ákveðnu fræðsluátaki meðal skólanema um loftslagsbreytingar og leiðtogafundinn sjálfan.

Það var samþykkt að standa fyrir umræðu með breiðri þátttöku alþýðu um loftslagsmálin þar sem sjónum yrði beint að ábyrgð einstaklingsins og félagslegum afleiðingum loftslagsbreytinga fyrir samfélagið þar sem áhrifin verða mest. Það var samþykkt að það ætti að standa fyrir sýningum og kynningu á endurnýjanlegum orkugjöfum og umhverfistækni í tengslum við ráðstefnuna og að það ætti að skipuleggja norrænar hringborðsumræður með fremstu sérfræðingum allra Norðurlandanna með það að markmiði að geta tekið ákvörðun um ný metnaðarfull markmið Norðurlandanna í orkumálum. Einnig var talað um að hrinda úr vör verkefni sem miða að því að þróa nýjar lausnir í orkumálum til að draga úr koltvísýringsmengun og auk þess þróa enn frekar rannsóknasamstarf í umhverfismálum á norrænum og alþjóðlegum vettvangi, svo að eitthvað sé nefnt.

Til þess að við Íslendingar getum staðið við hlið norrænu þjóðanna í þessu efni þarf að byrja að vinna heimavinnuna því að þetta gerist ekki bara sisvona á fundinum í Kaupmannahöfn 2009. Íslensk stjórnvöld þurfa að tryggja að hér heima séu þessi markmið uppfyllt með því að það sé aktíft farið út í samfélagið og uppfræðslan stunduð þar, inn í skólakerfið og að þeir hópar í samfélaginu sem hafa hingað til gefið sig út fyrir að vilja taka þátt í þessari umræðu og aðgerðum í þessum efnum séu þá virkjaðir og að þátttaka þeirra á fundinum í Kaupmannahöfn í okkar nafni verði tryggð. Þetta tel ég afar mikilvægt ef við í alvöru ætlum að uppfylla þau markmið okkar að vera í fararbroddi í þessari umræðu og aðgerðum í loftslagsmálunum.

Af því að hæstv. utanríkisráðherra talar um það í ræðu sinni að hún láti sér annt um opna umræðu og samstarf við almenning í alþjóðamálum langar mig til að nefna hér, hæstv. forseti, að þá er mjög mikilvægt að aðgerðir fylgi þeim orðum og að við praktíserum það lýðræði sem talað er fyrir. Þá erum við kannski komin að þeim mikilvæga þætti lýðræðisins sem lýtur að því hvernig við tryggjum þátttöku almennings í ákvarðanatöku. Að mínu mati tryggjum við hana ekki nema með mjög mikilli og vandaðri upplýsingagjöf til almennings. Í þessu sambandi langar mig til að minna á eitt af skítugu börnunum hennar Evu sem ríkisstjórnin hefur falið í skuggunum og það er (Gripið fram í.) — af óhreinu börnunum hennar Evu; svo að stuðlanna sé gætt í setningunni voru þau óhrein, börnin hennar Evu — Árósasamningurinn.

Við vitum að fyrri ríkisstjórn lét undir höfuð leggjast að fullgilda Árósasamninginn. Einungis ein af þremur stoðum samningsins var leidd í lög á síðasta kjörtímabili. Nú bíður þessarar ríkisstjórnar að reka af okkur slyðruorðið í þeim efnum og að fullgilda þær tvær stoðir Árósasamningsins sem eftir eru. Það er algjört grundvallaratriði. Ef við ætlum á alþjóðavettvangi að teljast trúverðug í umræðunni um umhverfismál og ef við ætlum að láta taka okkur alvarlega verðum við að geta staðið teinrétt og keik og sagt að við höfum eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar fullgilt Árósasamninginn. Það getum við ekki gert í dag þannig að ég tel að hæstv. utanríkisráðherra verði að tryggja það að á næstu dögum verði farið í þá vinnu að klára til enda fullgildingu Árósasamningsins.

Það má nefna fleiri alþjóðlega samninga sem við þurfum að ganga í að fullgilda. Það er ákveðið forgangsverkefni hjá þessari ríkisstjórn að fara í málefni barna og í þeim efnum höfum við heyrt að hæstv. félagsmálaráðherra vill gjarnan að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna verði endanlega leiddur í lög á Íslandi. Ég fagna því. En það eru fleiri samningar sem við þurfum að fullgilda og þar nefni ég sérstaklega samninga sem varða dýraverndarmál, einnig eru samningar um flóttamannamál og má nefna fleiri atriði í þeim efnum sem koma fram í svari hæstv. utanríkisráðherra fyrir skemmstu við fyrirspurn hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur um aðild Íslands að alþjóðasamningum. Menn geta kynnt sér það á þskj. 143.

Ef við ætlum, hæstv. forseti, í alvöru að taka þátt í samfélagi þjóðanna og vera þar trúverðugur þátttakandi tel ég mikilvægt að við áttum okkur á því að við höfum verk að vinna hér heima. Við þurfum að ganga í að fullgilda þá samninga sem við eigum eftir að fullgilda, við þurfum að tryggja að samstarf okkar við Sameinuðu þjóðirnar sé með þeim hætti að við förum fram með þann boðskap sem er við hæfi og sómir herlausri þjóð í Norður-Atlantshafinu og við þurfum að tryggja að umhverfismál, félagslegt réttlæti og mannréttindi séu ævinlega í fararbroddi í öllum okkar málflutningi á alþjóðavettvangi og að orðum okkar fylgi aðgerðir.