135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:02]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Þetta er góð og þörf umræða, virðulegi forseti. Mitt svar er mjög einfalt: Báðir verða að græða. Fyrirtækin verða líka að hagnast. Við getum ekki ætlað fyrirtækjunum að vinna þetta í sjálfboðavinnu. Það er hins vegar eðlilegt að þau átti sig á því að slík verkefni hafa langtímaarðsemi að leiðarljósi.

Mér finnst hv. þingmaður horfa með nokkuð einföldum hætti á kapítalismann. Bandaríkin skora ekki sérlega hátt í samanburði varðandi alþjóðlega samkeppnishæfni. Hvers vegna? Vegna þess að þar er ekki nógu vel hlúð að ýmsum þáttum velferðar. Þau ríki sem koma best út í alþjóðlegri samkeppnishæfni eru einmitt Norðurlönd vegna þess að þar hefur verið lagður grunnur að langtímaarðsemi, langtíma hagstæðum kapítalisma. Nákvæmlega það þarf að gerast á alþjóðavísu. Velferð og gróði í viðskiptum eru ekki andstæður heldur getur þetta farið mjög vel saman.

Mér finnst gæta nokkurrar einföldunar hjá þingmanninum í þessu, að þetta þurfi að vera val um annað tveggja og að annaðhvort græði fyrirtækin sem flytja út þekkingu eða viðtökuríkið. Ég held að báðir geti grætt, ég held að það sé engin þversögn í því fólgin. Ég held þvert á móti að fordæmi Norðurlandanna og samfélagsuppbygging Norðurlandanna sýni að allir þátttakendur í samfélaginu geti grætt. Það er hægt að byggja upp þannig samfélög, þar sem allir græða, allir verða þátttakendur og allir eiga rétt, ekki bara sumir.