135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[15:59]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég hef fyrir framan mig er álit nefndarinnar sem var afgreitt í mars og þar kemur ekki fram að vísindasiðanefnd hafi sent umsögn. Hvort það er fyrir mistök get ég ekki svarað fyrir. Ég styðst við það sem stendur hér.

Varðandi gjaldtöku fyrir umframfósturvísa þá er það þannig að fósturvísar eru teknir þegar fólk fer í tæknifrjóvgunarmeðferð. Þeir eru yfirleitt geymdir í fimm ár. Samkvæmt lögum á að farga þeim eftir fimm ár. Þá fósturvísa er með þessu frumvarp heimilt að nota í rannsóknir að undangengnu skriflegu samþykki þeirra sem eiga fósturvísinn og jafnframt vísindasiðanefndar. Ég sé ekki að fólk í þeirri stöðu að hafa geymt fósturvísa í 5 ár telji sér hag í því að selja þá fósturvísa að fimm árum liðnum.

Hins vegar tek ég undir það sem hæstv. heilbrigðisráðherra sagði áðan og hv. þingmaður beinir að heilbrigðis- og trygginganefnd að auðvitað mun hún skoða þetta mál, hún mun skoða það nákvæmlega og hafi komið fram ný sjónarmið mun hún fara vandlega yfir það.