135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[16:27]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér er einkum hugleikið réttlætið og samkeppnisstaðan, að íslensk fyrirtæki geti boðið í fisk sem veiddur er við strendur landsins, fisk sem fer þá ekki til vinnslu í eigin fyrirtækjum útgerðarinnar heldur er fluttur í gámum á fiskmarkaði erlendis án þess að íslenskar fiskvinnslur hafi einu sinni möguleika á að bjóða í hann. Hvaða réttlæti er í því?

Fiskvinnslur vilja eiga möguleika á því að halda fiskvinnslufólki á launaskrá án þess að nóg hráefni sé til. Það er ekki síst ein af aðgerðunum sem tengist kvótaniðurskurðinum. Það hlýtur að skjóta skökku við að horfa kannski á sömu fyrirtækin flytja óunninn fisk út í gámum á markað erlendis en vera jafnframt að sækja þann rétt að geta haldið starfsfólki sínu á launum þrátt fyrir hráefnisskort.