135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[17:28]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég neyðist til þess að andmæla kröftuglega þeirri skoðun hv. þingmanns sem hér talaði að ég standi fyrir einhverjum sérhagsmunum, þvert á móti. Ég hef litið svo á og hef alla tíð gert að sjávarútvegur á Íslandi sé ein mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar og alveg sérstaklega þegar kemur að landsbyggðinni þá skipti höfuðmáli hverjar rekstrarforsendur þeirrar greinar eru af því að ég tel að ef við ætlum okkur að halda landinu í byggð þá skipti mestu máli að sjávarútvegurinn hafi tækifæri til þess að eflast og vaxa eins og best skilyrði geta boðið.

Ég fór yfir það í andsvari mínu áðan að það er um tvennt að ræða, annars vegar um hagræna þáttinn og hins vegar líffræðilega þáttinn. Ég hef áhyggjur af líffræðilega þættinum. Ég tel að það megi halda áfram að bæta hin hagrænu skilyrði, meðal annars með því að ræða vel hvers eðlis eignarrétturinn er í sjávarútvegi. En það liggur fyrir mín grundvallarafstaða að það eigi að byggja á séreignarréttarkerfi í sjávarútvegi. Frá því mun ég ekki kvika.

Hvað varðar söguna í þessu þá þekkir hv. þingmaður það jafn vel og ég að vandamál í íslenskum sjávarútvegi voru alveg gríðarleg. Ef við hefðum betri tíma mundi ég gjarnan vilja taka umræðu við hv. þingmann um það hversu mjög íslenska þjóðin hagnaðist á þessu, þ.e. á því fyrirkomulagi veiðanna sem var á þessum tíma. Ég tel að við hefðum getað komið miklu betur úr þessu ef við hefðum gert þetta með öðrum hætti. Ég tel að því miður hafi verið um að ræða offjárfestingu í greininni sem við síðan þurftum að súpa seyðið af, sem meðal annars voru rökin fyrir því að við tókum upp kvótakerfið af því að við sáum að í óefni stefndi. Það var ekki bara að sjávarútvegurinn væri kominn á heljarþröm, þar með var verið að kippa grundvellinum undan landsbyggðinni og um leið hagsæld Íslands.