135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

takmörkun auglýsinga á óhollri matvöru.

47. mál
[17:50]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að lýsa yfir sérstakri ánægju minni með þessa tillögu til þingsályktunar sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir mælti fyrir og lýsa mig algjörlega sammála meginmarkmiðum tillögunnar. Ég verð reyndar að lýsa þeirri skoðun minni að þótt ég sé hjartanlega sammála öllu sem þingmaðurinn sagði í inngangsræðu sinni hef ég velt því fyrir mér hvort ekki sé jafnvel ástæða til að ganga enn lengra varðandi þessi mál vegna þess að við sjáum það eins og staðan er í dag að í raun og veru er allt að fara á hinn versta veg í þessum málum. Íslendingar eru að þyngjast mikið, ekki bara börn og unglingar heldur líka fullorðnir. Hv. þingmaður gat þess að hún hefði flutt málið áður á fyrra þingi og það væri endurflutt núna og ég tel satt best að segja að við séum kannski komin að þeim punkti í umræðunni að það þurfi að fara að ræða mun drastískari aðgerðir en þessi hógværa þingsályktunatillaga gerir þó ráð fyrir.

Það er rétt sem hv. þingmaður sagði að markaðssetning í barnatímum sjónvarps og fjölmiðla gengur sérstaklega út á tvennt, hún gengur út á mat og leikföng, og allir sem hafa horft á og fylgst með barnatímum ásamt með börnum sínum vita að þetta hefur veruleg áhrif. Þegar skyndibitinn, gosið og öll óhollustan er auglýst morgun eftir morgun, dag eftir dag í þessum miðlum síast þetta inn í krakkana og hefur mikil áhrif.

Hin hliðin á þessum teningi, talandi um lýðheilsu barna og heilsufar barna, er anorexía og búlimía því að við sjáum að á sama tíma og við erum að fást við of þung börn erum við líka að fást við æ stærra hlutfall krakka, sérstaklega stelpna, sem þjást af anorexíu og búlimíu. Ég held að þetta þurfi að setja í allsherjarsamhengi og skoða líðan og heilsufar barnanna okkar. Hvað er að gerast í samfélaginu sem gerir það að verkum að við sjáum öfgar í báðar áttir?

Hv. þingmaður nefndi hér réttilega mötuneyti. Eins og staðan er í dag í flestum grunnskólum landsins eru skólarnir farnir að bjóða upp á heitan mat í hádeginu. Ég vil leyfa mér að fullyrða að það sé mjög upp og ofan hvernig hugað er að samsetningu fæðunnar þar, til að mynda hversu oft fiskur er hafður á borðum í þessum mötuneytum. Nú er ég ekki að fullyrða að það sé alls staðar misbrestur á því en þetta þarf að skoða. Sem betur fer eru foreldrar og skólayfirvöld að verða æ meðvitaðri um þetta og farin að veita rekstraraðilum og þeim sjá um að setja saman matseðla í skólunum æ meira aðhald. Ég þekki dæmi þess frá síðasta vetri að á matseðli eins grunnskóla í borginni hafi ekki verið boðið upp á fisk einu sinni í viku heldur mikið af tilbúnum réttum. Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða og taka á en það gerum við líka með almennri vitundarvakningu í samfélaginu og opinskárri og heiðarlegri umræðu, ekki bara á þinginu heldur líka úti í samfélaginu.

Það eru sláandi tölur sem koma fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni um að ungir strákar drekki að meðaltali einn lítra af gosdrykkjum á dag. Þetta eru sláandi tölur. Það var líka sláandi að fylgjast með því sem ég sá um daginn í sjónvarpinu, ég hygg að það hafi verið í Kastljóssþætti, þar sem fjallað var um svokallaðar hjáveituaðgerðir sem framkvæmdar eru í því skyni að minnka magaummál einstaklinga svo að þeir innbyrði minni fæðu en ella. Þessum hjáveituaðgerðum hefur fjölgað geigvænlega á undanförnum missirum á Íslandi og það sem sló mig hvað mest í þessari umfjöllun Kastljóssins var að það var nefnt að nokkur börn undir tólf ára aldri hefðu farið í slíkar aðgerðir. Maður veltir því auðvitað fyrir sér á hvaða leið við erum þegar börn þurfa að fara í slíkar aðgerðir.

Það þarf að verða einhvers konar vitundarvakning í samfélaginu í þessum efnum en eins og hv. þingmaður nefndi og tók dæmi frá Bretlandi er hreint bann við því að auglýsa svokallað ruslfæði þar. Þó að ég fagni mjög því máli sem hv. þingmaður leggur hér fram og ég vonist til að það verði samþykkt og settar verði einhverjar reglur, ætla ég hins vegar að spá því að þess verði ekki langt að bíða að í framhaldinu kalli menn eftir einhverju samræmdu regluverki varðandi þetta, jafnvel banni við auglýsingum o.s.frv. Það kann vel að vera að ýmislegt annað megi fylgja með í þessu eins og auglýsingarnar um allt dótið sem rignir yfir börnin okkar í auglýsingatímum. Nú þekki ég ekki hvernig þetta er annars staðar en það kann vel að vera að það komi hreinlega til greina að skoða hvort setja eigi samræmdar reglur um auglýsingar í barnatímum almennt, en mín skoðun er sú, hafandi fylgst með barnatímum í sjónvarpi reglulega í nokkur ár, eða ég hef það á tilfinningunni að þessum auglýsingum sé að fjölga. Ég get ekki rökstutt það með einhverjum tölum en ég hef það á tilfinningunni að þeim sé að fjölga, bæði varðandi leikföng og ekki síður varðandi óholla matvöru. Ég er því mjög ánægð með að hv. þingmaður skuli hafa komið fram með þetta mál og mælt fyrir því og ég vona svo sannarlega að það hljóti stuðning í þinginu.