135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

samkeppnislög.

26. mál
[19:00]
Hlusta

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á samkeppnislögum. Ég vona að það þoli dagsins ljós eða þetta ljós sem hefur lifað í salnum alla vega í dag og við komumst í gegnum þetta án mikilla truflana frá lýsingunni.

Ég hef áður flutt þetta mál og geri það nú með stuðningi nokkurra þingmanna úr Sjálfstæðisflokknum eins og fram kemur á þingskjali 26, en þetta mál hefur ekki hlotið afgreiðslu á fyrri þingum.

Í þessu máli er verið að leggja til tvær breytingar á samkeppnislögunum. Þær miða að því að hækka ákveðnar viðmiðunarfjárhæðir vegna tilkynningaskyldra samruna til Samkeppniseftirlitsins. Þannig er að samkvæmt 2. mgr. 17. gr. samkeppnislaga er skylt að tilkynna samruna til Samkeppniseftirlitsins enda sé sameiginleg heildarvelta viðkomandi fyrirtækja einn milljarður króna eða meira og ársvelta að minnsta kosti tveggja af þeim fyrirtækjum sem aðild eiga að samrunanum yfir 50 millj. kr. Báðar þessar viðmiðunarfjárhæðir eru að mati flutningsmanna allt of lágar. Það er því verið að leggja til í þessu frumvarpi að þessar viðmiðunarfjárhæðir verði hækkaðar verulega.

Eins og fram kemur í þingskjalinu eru fyrir þessu nokkur rök og þar er fyrst tínt til að umsvif fyrirtækja á Íslandi hafa aukist mikið undanfarin ár frá þeim tíma sem þessar fjárhæðir voru ákvarðaðar og fyrirtækjum sem falla undir viðmið laganna, þ.e. hafa veltu yfir 1 milljarði kr., hefur því fjölgað verulega. Það liggur því í augum uppi að þessar fjárhæðir þarf að uppfæra í takt við þróun viðskiptalífsins og með hliðsjón af þeim miklu breytingum sem orðið hafa undanfarinn áratug. Þess má einnig geta að umræddar viðmiðunarfjárhæðir samkeppnislaga eru í engu samræmi við það sem gildir hjá nágrannaþjóðum okkar. Það er ekki óeðlilegt að við lítum aðeins til landanna í kringum okkur sem hafa sambærilega löggjöf og við höfum á þessu sviði og skoðum hvernig þeir hafa hagað sinni löggjöf í þessu tilliti. Ég vil þó taka fram að það eru sterk rök til þess að hafa viðmiðunarfjárhæðir í þessu sambandi lægri á Íslandi vegna þess hve efnahagsstærðirnar almennt eru minni hér á landi. Markaðurinn er minni og við getum sagt viðskiptalífið almennt viðkvæmara fyrir samrunum og of mikilli samþjöppun heldur en gildir í stærri löndum. Það er engu að síður sláandi hve munurinn er mikill. Í Danmörku er miðað við að heildarvelta samrunafyrirtækja jafngildi um 44 milljörðum kr. Hér er viðmiðunarfjárhæðin 1 milljarður, þ.e. fyrir annað fyrirtækið þegar um tvö fyrirtæki er að ræða. Í Finnlandi er viðmiðið fyrir heildarveltu að jafngildi um 30 milljarðar kr. og í Finnlandi gildir sú regla að velta að minnsta kosti tveggja fyrirtækja skuli vera að jafngildi 1,7 milljarða kr. en við erum þar með þessa viðmiðunarfjárhæð sem ég nefndi áðan, 50 milljónir. Í Svíþjóð er miðað við að heildarvelta samrunafyrirtækja jafngildi um 38 milljörðum kr. en velta að minnsta kosti tveggja fyrirtækja um 1 milljarði kr.

Það er mikilvægt að hafa í huga í samhengi við þetta mál að tilkynningarskylda um samruna eða yfirtöku er ekki léttvæg formkrafa sem alltaf er auðvelt að uppfylla. Það er alls ekki þannig. Það þarf að leggja í þó nokkra vinnu við að taka saman upplýsingar sem gerður er áskilnaður um í lögunum. Þannig þarf að upplýsa um aðdraganda samrunans og veltu fyrirtækjanna sem í hlut eiga, eignarhald og fjárhagsleg tengsl. Skilgreina þarf þá markaði sem samruninn hefur áhrif á. Að jafnaði kallar sú vinna á aðstoð lögfræðinga og eftir atvikum endurskoðenda. Eins og menn geta getið sér til um þá valda óþarflega ríkar kröfur um tilkynningarskyldu hreinlega ástæðulausu álagi á Samkeppniseftirlitið og eru að sjálfsögðu að ástæðulausu of íþyngjandi fyrir þau fyrirtæki sem í hlut eiga. Það er engin ástæða til að fella of mörg tilvik undir þessa tilkynningarskyldu og við skulum hafa það í huga að við höfum verið að horfa til þess að verja frekari fjármunum til Samkeppniseftirlitsins og reyna að styrkja þann grundvöll sem eftirlitið starfar á. Það hefur verið horft til þess undanfarin ár og Samkeppniseftirlitið hefur þó nokkuð mikið verið í umræðunni. Við erum ekki að gera mönnum neinn greiða með því að vísa smámálum í stórum stíl þarna inn, alveg að því ógleymdu hversu mikið álag þetta er og óþarfafyrirhöfn fyrir þau fyrirtæki sem í hlut eiga í allt of mörgum tilvikum.

Við skulum bara velta því upp, virðulegi forseti, hvers konar fyrirtæki við erum að tala um sem velta 50 millj. kr. Hvers konar fyrirtæki eru það? Ef við værum til að mynda með fyrirtæki sem er í vöruviðskiptum með hefðbundna álagningu í sínum rekstri þá gæti hið dæmigerða fyrirtæki sem þar ætti í hlut verið með svona fjóra til sex starfsmenn, hið dæmigerða fyrirtæki, og það liggur við að maður velti því fyrir sér hvers vegna þetta viðmið sé ekki fyrir alla samruna og öll fyrirtæki vegna þess að þau eru býsna fá fyrirtækin sem eru í einhverjum alvörurekstri, sem eru ekki bara hreinar skeljar utan um ekkert innihald, sem eru með miklu minna en 50 millj. kr. í veltu. Það eru kannski fyrirtækin með einn eða tvo starfsmenn. Því liggur við að þetta fyrirtæki sé farið að taka bara yfir hvað þetta skilyrði snertir, hvað 50 millj. kr. viðmiðunarfjárhæðina snertir meira og minna öll fyrirtæki á Íslandi og augljóslega er ekki ástæða til þess að blanda Samkeppniseftirlitinu inn í uppkaup og samruna við öll slík fyrirtæki á Íslandi. Við viljum að það komi til kasta Samkeppniseftirlitsins mál þar sem raunverulegir hagsmunir eru í húfi og það er ástæða til að ætla að kaup eða samruni geti skipt máli varðandi samkeppni á íslenskum mörkuðum. Það eru þau mál sem við viljum að komi til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu. Við megum ekki vera að skjóta spörfugla með fallbyssu í lagasetningunni.

Ég vil láta þess getið sem fram kemur í greinargerð með þessu máli að atvinnulífið hefur áður hvatt til þess að viðmiðunarmörk þessi verði hækkuð. Þar má nefna Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands. Raunar hafa Samtök atvinnulífsins bent á að ákjósanlegast væri að fella með öllu niður bann við samruna fyrirtækja, þ.e. fella niður tilkynningarskylduna með öllu og leggja þess í stað áherslu á strangt og virkt aðhald Samkeppniseftirlitsins. Það hefur líka verið bent á óheppilegt sé að hafa þessar viðmiðunarfjárhæðir lögbundnar og að heppilegra væri að hafa viðmiðunarmörkin bundin í reglugerð þannig að þau væri hægt að endurskoða reglulega. Þetta hefur ekki verið gert frá því að ákvæðið var lögtekið, þ.e. viðmiðunarmörkin hafa ekki verið færð upp frá þeim tíma en hefði verið auðveldara ef þau væru bundin í reglugerð þannig að það er svo sem ágætissjónarmið. En það er hvorki verið að leggja það til hér að ákvæðið verði fellt niður né að fjárhæðirnar verði alfarið færðar yfir í reglugerðarform heldur er einungis verið að hreyfa við fjárhæðunum til hækkunar. Ég hef heyrt því sjónarmiði hreyft meðal annars hjá meðflutningsmönnum mínum að þessu máli að frumvarpið hefði jafnvel mátt ganga enn lengra og hækka fjárhæðirnar meira en hér er gert. Ég tel að hérna sé verið að stíga hóflegt og skynsamlegt skref. Á hinn bóginn hefur það komið fram í fjölmiðlum að Samkeppniseftirlitið telji ekki ástæðu til að hreyfa við þessum fjárhæðum og að það telji sjálft að þær séu raunhæfar og heppilegar. Það má vel vera að eftirlitið telji það fyrir sitt leyti. Ég er bara einfaldlega ósammála því og mér finnst það mat Samkeppniseftirlitsins, ef það er þá hin formlega afstaða eftirlitsins til efnisatriða þessa máls, þá tekur það í það minnsta ekki nokkurt tillit til þess atriðis sem jafnframt skiptir mjög miklu máli, þ.e. hversu íþyngjandi þetta er fyrir þá sem hlut eiga að máli. Þetta er mál sem veldur atvinnulífinu óþarfakostnaði, óþarfafyrirhöfn í allt of mörgum málum og setur að mínu áliti allt of mörg mál til skoðunar inn í Samkeppniseftirlitið þar sem engin ástæða er til þess að óttast það sérstaklega að óhæfileg samþjöppun sé að verða á einhverjum mörkuðum á Íslandi.

Við skulum jafnframt hafa í huga, og það er ekki síst mikilvægt að koma því að hér í restina, það er atriði sem ekki má gleymast í umræðum um þetta mál sem er nefnilega það að við erum bara að tala um þau mál þar sem tilkynningarskylda er til staðar, þar sem einhver atvik eru uppi þar sem skylt er að upplýsa Samkeppniseftirlitið um að samruni eða yfirtaka hafi farið fram eða standi til. Þetta mál fjallar ekkert um það hvenær Samkeppniseftirlitið á að grípa inn í. Það er ekki verið að fella undan samkeppnislögunum nein tilvik og segja að þessi mál sem áður hefði verið óheimilt að sameina sleppi í gegnum síu samkeppnislaganna í framtíðinni. Nei, það er ekki verið að gera þetta. Það er einungis verið að fjalla hér um þau mál sem á að tilkynna inn til Samkeppniseftirlitsins. Eftir stendur heimild Samkeppniseftirlitsins óskoruð til að blanda sér í mál þar sem þeir telja ástæðu vera fyrir hendi og það geta þeir gert eins og við þekkjum úr lögunum með ýmsum hætti, bæði með því að setja slíkum samruna einhver ákveðin skilyrði eða hreinlega með því að ganga lengst, eins langt og hægt er sem er að banna samrunann með öllu.

Ég held að ég láti þetta nægja sem almenna umfjöllun um efnisatriði málsins og vonast til að málið komi hratt og örugglega til nefndar og þaðan aftur út til frekari umfjöllunar á þinginu.