135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:36]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sem formanni fjárlaganefndar er mér ljúft og skylt að þakka minni hlutanum fyrir nefndarálit sitt, eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, varaformaður fjárlaganefndar, gerði. Ég verð að segja að margt í textanum hefðum við getað skrifað sameiginlega, enda er nokkuð góður samhljómur í hv. fjárlaganefnd, m.a. varðandi breytingar á verklagi. Ég vil minna þingheim á að fjárlaganefndin skipaði starfshóp til að fara yfir ákveðin mál með fjármálaráðuneyti og ríkisendurskoðanda en í starfshópnum eru, auk mín, hv. þingmenn Kristján Þór Júlíusson og Jón Bjarnason.

Það eru auðvitað ólíkar skoðanir um margt og þær birtast í nefndarstörfum og þingsal, án þess að ég svari einu eða neinu. Hins vegar vil ég ítreka að nefndarstarfið sem farið hefur fram í aðdraganda 2. umr. fjáraukalaga og varðandi fjárlögin hefur gengið nokkuð vel og allir hafa haft tækifæri til að koma sínu á framfæri. Þannig viljum við hafa það þrátt fyrir að pólitískur ágreiningur geti orðið um hina stóru mynd og einstaka liði. Ég ítreka að umrætt nefndarálit er vel unnið og margt sem er í samræmi við umræður sem við höfum átt í fjárlaganefndinni.