135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[17:10]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Líkt og í fyrri andsvörum mínum byrja ég orðræðu mína á því að þakka samstarfsmanni mínum í fjárlaganefnd fyrir gott og heilsteypt samstarf. Svo sem vænta mátti af hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni er gagnrýni hans borin uppi af mjög málefnalegri umræðu og ráðagóðum tillögum og ber að þakka sérstaklega fyrir það.

Minni hluti fjárlaganefndar flytur tvær breytingartillögur. Ég vil spyrja hv. þingmann sérstaklega út í aðra þeirra og gera hana að umtalsefni. Um er að ræða breytingartillögu um að fella úr gildi heimild til að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Ég á mjög bágt með að skilja grunninn að tillögunni. Fram kemur í greinargerðinni með tillögunni að ríkið á 20% hlut í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar á móti 80% hlut Orkuveitu Reykjavíkur. Í lýsingunni kemur einnig fram að Deildartunguhver er m.a. í eigu hitaveitunnar, hann er einhver vatnsmesti hver á jarðríki og úr honum koma 180 lítrar af 98° heitu vatni á sekúndu upp á yfirborðið. Varla breytist það þótt ríkið selji hlutinn í því. Ég vil heyra meiri rökstuðning fyrir því.

Ég vil hins vegar taka undir varnaðarorð þau sem koma fram í minnihlutaáliti hv. þingmanna Jóns Bjarnasonar og Guðjóns A. Kristjánssonar þar sem þeir rekja vankanta á áætlanagerð í ríkisbúskapnum. Þar er sérstök athygli vakin á vanáætlunum varðandi sameiningu stofnana og hlutafjárvæðingu (Forseti hringir.) á undanförnum árum og rétt er þá að hafa í huga breytingarnar sem verið er að gera á Stjórnarráðinu.