135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:40]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil gera grein fyrir afstöðu okkar framsóknarmanna í atkvæðagreiðslu þessari. Ég hef sem fjárlaganefndarmaður staðið að meirihlutaáliti með ríkisstjórnarmeirihluta í álitsgerð um fjáraukalögin. Kemur tvennt til að okkur þykir ekki rétt að leggjast gegn þeim fjárveitingum sem hér eru til þjóðþrifamála og að margar af fyrirliggjandi tillögum eru beinlínis vegna verka sem við framsóknarmenn stóðum að í fyrri ríkisstjórn. Eins og ég gerði grein fyrir í umræðu um fjáraukalög í gær tel ég margt mjög athugavert við framkvæmd mála við framlagningu fjáraukalaganna auk þess sem tekjuáætlun í áætluninni mun vera vanáætluð og er í rauninni grunnur undir þeirri skekkju í fjárlögunum sem við munum fjalla um í þinginu eftir nokkra daga.

Varðandi útgjaldaliðina hef ég sérstaklega gert athugasemd við það að hér er ekki fylgt ákvæðum fjáraukalaga þar sem fjáraukalögum er ætlað að mæta útgjaldaauka vegna lögbundinna verkefna og útgjalda sem verða óviðráðanleg í ríkisrekstrinum á yfirstandandi ári. Með fjáraukalögum hér er ráðist í það að klippa af hina ýmsu skuldahala ríkisstofnana sem eiga sér sögu langt aftur í tímann, jafnvel aftur á síðustu öld, og það er ekki hlutverk fjáraukalaga að taka á þeim vanda. Auðvitað er fagnaðarefni að góðar stofnanir — hægt er að taka dæmi um bæði framhaldsskóla og ríkisspítalana í Reykjavík — séu ekki látnar dragnast með þessar skuldir. Hitt er meira athugavert hvernig handvalið er úr að sumar stofnanir fái þarna úrlausn en aðrar ekki, svo sem Reykjalundur og Heilbrigðisstofnunin á Austurlandi, og öll þessi vinnubrögð eru nokkuð tilviljanakennd. Af þessum ástæðum og því að við framsóknarmenn eigum ekki aðild að þessari ríkisstjórn munum við sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.