135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:58]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér eru greidd atkvæði um heimildargreinar, annars vegar um að leigja hentugt húsnæði fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands og hins vegar er verið að sækja um heimild til að ganga til endanlegra samninga við Landsvirkjun um vatnsréttindi ríkisins við Kárahnjúka á grundvelli úrskurðar matsnefndar um ákvörðun bóta vegna réttindanna.

Ég dreg ekki úr nauðsyn þess að ganga til þessara samninga við Landsvirkjun um vatnsréttindi ríkisins við Kárahnjúka en við munum ganga frá fjáraukalögum í byrjun desember og ég sé enga ástæðu til að þetta ákvæði eigi að koma inn á fjáraukalög. Það er þá miklu eðlilegra að það komist inn á fjárlög næsta árs því að væntanlega verður ekkert gert í þessu máli fyrr. Þess vegna eru hér misnotuð fjáraukalögin með því að setja þetta inn í þau í árslok.