135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2007, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

269. mál
[15:15]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna sem farið hefur fram og tek undir þær áhyggjur og ábendingar sem fram hafa komið bæði í máli formanns utanríkismálanefndar, Bjarna Benediktssonar, og í máli Kolbrúnar Halldórsdóttur varðandi það hversu takmörkuð aðkoma Alþingis er að umræðu um veigamiklar tilskipanir sem munu hafa heilmikil áhrif á íslenskt samfélag í framtíðinni. Hér er um gríðarlega stórt mál að ræða og verið er að ræða það í fyrsta skipti á Alþingi og í rauninni er þannig í pottinn búið að í sjálfu sér er ekkert að gera en annaðhvort að taka þetta eða sleppa því. Ef við sleppum þessari tilskipun setjum við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði í algjört uppnám. Þingið er því í talsvert læstri stöðu í þessu máli. Þetta er kannski til marks um það hvernig þessi samningur virkar. Þó að hann hafi fært okkur gríðarlegan ávinning á umliðnum árum er þessi skavanki á honum, þessi lýðræðislegi halli.

Ekki er þar með sagt að ekki sé hægt að gera þetta betur. Í rauninni ætti mál af þessu tagi að koma til kasta þingnefnda eða til umræðu í þingnefndum á fyrri stigum. Gríðarlega stór mál eru undir. Við getum tekið sem dæmi tilskipun sem er væntanleg og umræðu um málefni hafsins. Það er gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga og þyrfti að ræðast með einhverjum hætti á þingi og í nefndum þingsins þannig að samningamenn okkar hefðu þá pólitískt lýðræðislegt veganesti frá Alþingi. Ég tel fulla ástæðu til að skoða með hvaða hætti hægt sé að standa betur að þessum málum. Það er raunar eitt af því sem ég vil gjarnan beita mér fyrir og hef því óskað eftir að fá að flytja Alþingi skýrslu um Evrópumál. Hún verður flutt í janúar þannig að þá gefist að minnsta kosti ráðrúm til að ræða hvernig við viljum standa að þessum málum.

Varðandi þessa tilskipun er það, eins og kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, óþægilegt að við séum að ganga inn í viðskiptakerfi sem mun hafa áhrif á okkur í framtíðinni en við höfum kannski ekki getað haft mikil áhrif á hvernig þróaðist. Vandamálið er líka það að jafnvel þó að við tækjum ekki upp þessa tilskipun, leiddum hana ekki í lög hér á Íslandi, mundi hún samt hafa áhrif á okkur. Hún mundi samt hafa áhrif á flugið vegna þess að þegar flugsamgöngur og ál verður tekið undir tilskipunina — ég er sannfærð um að hvort tveggja verður tekið undir hana þegar fram líða stundir og kannski líka skipaflutningar, siglingar, það er ekki gott að segja — munu verða gerðar kröfur um að flugstarfsemin fái útstreymisheimildir og að lagt verði aukagjald á flugfargjöld. Þetta mun gerast bæði innan Evrópusambandsins og milli Evrópusambandsins og annarra ríkja. Íslensk flugfélög — þó að við værum ekki aðilar að tilskipuninni — sem fljúga inn á Evrópumarkaðinn mundu þurfa að verða sér úti um slíkar heimildir og greiða slík gjöld. Það sem gerist í Evrópu, með sín 27 ríki innan borðs, hefur þannig áhrif á okkur, bæði beint og óbeint. Þetta er veruleikinn sem fylgir því að vera í samskiptum við þá stóru viðskiptablokk og það efnahagskerfi sem Evrópusambandið er.

Mikilvægt er að við séum vakandi fyrir því á frumstigi þegar verið er að innleiða slíkar tilskipanir hvort og þá með hvaða hætti við getum samið um undanþágur. Stundum er fullkomlega eðlilegt að við fáum ákveðnar undanþágur einfaldlega vegna þess að við höfum þá sérstöðu að vera á útmörk Evrópu og búa við nokkuð sérstakar aðstæður. Ég er þeirrar skoðunar að við hefðum getað samið um undanþágur frá raforkutilskipuninni, sem við yfirtókum eins og hún kom af skepnunni, einfaldlega vegna þess að raforkukerfið okkar er ekki tengt Evrópumarkaðnum með raforku. Ef við hefðum gáð betur að okkur er ég þeirrar skoðunar að við hefðum getað samið um undanþágu.

Í þessu tilviki er einnig ástæða til að skoða hvort það getur skapað okkur einhverja möguleika um tilslakanir í framtíðinni að við erum Evrópuríki á jaðrinum, eins og bent var á af hv. þm. Bjarna Benediktssyni. Ég held að skilningur væri á því innan Evrópusambandsins. Eftir að gengið var frá tilskipuninni um viðskiptakerfi með losunarheimildir í framkvæmdastjórninni hefur Evrópuþingið fjallað um þetta. Evrópuþingið hefur gert tillögur um ákveðnar breytingar á tilskipuninni og þær breytingar snúa einmitt að því að taka tillit til þess, ef og þegar flugið kemur inn í þetta, að sérstaklega þurfi að taka tillit til samfélaga á jaðrinum. Ég held að fullur skilningur gæti verið á því innan Evrópusambandsins að sérstaða okkar er nokkur ef og þegar þetta verður að veruleika.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég vil þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir að leggja áherslu á að þetta þurfi að taka gildi fyrir áramót því að sú er raunin. Mikið er lagt upp úr því að málið verði afgreitt fyrir áramót vegna þess að fyrsta viðskiptatímabilið tekur gildi 1. janúar á næsta ári og samstarfsríki okkar, bæði Liechtenstein og Noregur, leggja á það mikla áherslu að þau geti verið með alveg frá upphafi á fyrsta viðskiptatímabilinu; Liechtenstein vegna þess að fyrirtæki þar telja sig hafa loftslagsheimildir eða útblástursheimildir til að selja og norsku fyrirtækin af því að þau telja sig þurfa að kaupa heimildir og vilja gjarnan vera aðilar að umræddu viðskiptakerfi.