135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

eignarhald á jörðum.

152. mál
[13:41]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem er mjög þörf. Þó ég sé almennt hlynntur frjálsum viðskiptum með land og með jarðir þá held ég að það séu ákveðnir hlutir sem hér er að varast og við sjáum þegar smámerki um þá í því að einstakir auðmenn hafa keypt upp mjög stór landsvæði. Ég legg áherslu á það eins og ég hef gert áður í þessu ræðupúlti að við þurfum að tryggja aðgengi og við þurfum að lagfæra löggjöfina varðandi aðgengi allra að löndum og takmarka rétt landeigenda til að girða lönd alfarið af. Raunar er eignarhald á jörðum, þessum gömlu sögustöðum sem jarðirnar eru, háð nokkuð öðrum annmörkum heldur en eignarhaldi á annars konar eigum og við skulum ekki gleyma því að þetta eru menningarstofnanir, jarðirnar. Fólk rekur ættir sínar til þeirra og heima á gömlu jörðunum búa ekki bara menn, þar búa huldar vættir og draugar og lögin þurfa að taka mið af þessu öllu saman.