135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

eignarhald á jörðum.

152. mál
[13:46]
Hlusta

Jón Björn Hákonarson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir að fá að koma inn í þessar gagnlegu umræður. Ég er ánægður með að menn séu farnir að skoða þessi mál og ég tek undir með mörgum þingmönnum, sem hér hafa talað, að þetta er visst áhyggjuefni.

Það er fagnaðarefni að bændur skuli geta notið ávaxta vinnu sinnar og geta horfið frá starfi. En engu að síður hafa menn áhyggjur af tilheigingu til samþjöppunar, að hún muni jafnvel lama heilu byggðarlögin eða heilu samfélögin. Ég sakna þess að menn skuli ekki horfa til nágrannaþjóða okkar sem hafa tekið á málum af þessum toga, sum þeirra með afgerandi hætti, svipað og Danir með búsetuskyldu.

Ég tel mjög brýnt að við horfum til þess, af því að þetta hefur áhrif. Þetta mun hafa áhrif engu að síður. Þó svo lítil samþjöppun sjáist þá er hún þannig að menn kaupa á eigin (Forseti hringir.) kennitölum og kennitölum félaga sinna.