135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

veiðar Færeyinga innan íslensku fiskveiðilögsögunnar.

179. mál
[14:05]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Grétar Mar Jónsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég hef náttúrlega miklu meira álit á hæstv. sjávarútvegsráðherra en nokkurn tíma framsóknarmaðurinn hv. þm. Birkir Jón Jónsson og ég vissi að hann færi létt með að svara tíu spurningum um svona mál.

Það sem ég hefði viljað leggja áherslu á í þessum spurningum er að það kæmi skýrt fram hvað Færeyingar veiða mikið af þorski í íslenskri lögsögu og það er kannski sú tegund sem við erum hvað forvitnastir um. Auðvitað skiptir loðnukvótinn máli, sem úthlutað var með minnsta móti á síðustu tveimur árum, það hefur sjaldan verið úthlutað minni kvóta af loðnu, og hvað þeir fá af honum.

Þegar fólk á landsbyggðinni býr við það að sjá fram á svartnætti á næstunni þá er það einfaldlega spurning hvort við höfum efni á því að vera góð við Færeyinga. Færeyingar hafa tekið tillit til okkar þegar við höfum átt við erfiðleika að stríða, í eldgosum og einhverju slíku, þá hafa þeir hjálpað okkur vel en þeir skilja okkur líka þegar við þurfum að skera niður veiðiheimildir. Það er líka spurning hvort Færeyingar, okkar bestu vinir, muni ekki skilja það þótt við þyrftum að útiloka þá frá þorskveiði um tíma.